The Guardian skýrir frá þessu og segir að dýrunum verði sleppt lausum á Ewhurst Park landareigninni en hún hefur verið endurgerð með hagsmuni náttúrunnar og matvælaframleiðslu að leiðarljósi.
Landareignin er 374 hektarar og er í eigu náttúruverndarsinnans, frumkvöðulsins og fyrirsætunnar Mandy Lieu. Hún hefur áður lýst yfir vilja sínum til að auðga vistkerfi landareignarinnar.
Hún telur bjórana nauðsynlega til að koma upp „ætilegu landslagi“ þar sem náttúran sé endurheimt um leið og matvæli séu framleidd. Hún hefur unnið með sérfræðingum að undirbúningi komu dýranna og hefur búr verið byggt fyrir þá til að uppfylla þær kröfur sem lög og reglur leggja á herðar hennar.
Bjórum var útrýmt í Bretlandi fyrir um 400 árum en þeir voru veiddir vegna feldsins og kjötsins. Á síðustu árum hafa stjórnvöld veitt leyfi fyrir sleppingum dýra innan ákveðinna lokaðra svæða. Á sama tíma hefur dýrum verið sleppt ólöglega víða um landið. Sumir sérfræðingar telja að mörg hundruð dýr lifi nú villt í landinu.