Heimsviðskiptaráðstefnan í svissneska fjallabænum Davos hófst í gær og stendur til 20. janúar næstkomandi. Ráðstefnan, sem í ár ber yfirskriftina „Samstarf í sundruðum heimi“ og vísar einna helst til Úkraínustríðsins, er vettangur þar sem elíta heimsins hittist og ræðir málin.
Þjóðarleiðtogar og auðjöfrar flykkjast á ráðstefnuna en það sama gerir kynlífsverkafólk því mikil eftirspurn er eftir slíkri þjónustu frá gestum ráðstefnunnar. Daily Mail greinir frá þessu og vísar í umfjallanir hjá Bild og öðrum miðlum.
Sala vændis er lögleg í Sviss en þrátt fyrir það passar kynlífsverkafólk, sem selur þjónustu sína, sig á því að klæða sig upp í jakkaföt eða dragtir til þess að skera sig ekki úr í hópi gesta hátíðarinnar en hitta síðan viðskiptavini sína á hótelum bæjarins. Hinir valdamiklu viðskiptavinir vilja nefnilega ekki að vændiskaupin fari hátt.
Í umfjöllun The Times frá árinu 2020 kom fram að 100 kynlífsverkamenn flykkist til Davos ár hvert og selji elítunni þjónustu sína fyrir hátt verð. Búist er við því að eftirspurnin verði ekki minni í ár.