Arsenal hefur sett sig í samband við Bayer Leverkusen vegna Moussa Diaby. Sky Sports segir frá.
Skytturnar eru í leit að manni í sóknarlínuna. Félagið missti af Mykhailo Mudryk á dögunum á síðustu stundu. Úkraínumaðurinn hélt til Chelsea þess í stað.
Diaby er 23 ára gamall og getur leyst stöðurnar fremst á vellinum.
Leverkusen metur leikmanninn mikils. Í sumar var haft eftir talsmanni þess að kappinn kosti um 100 milljónir evra.
Hvort að Arsenal sé til í að borga slíkt verð er óljóst en áhuginn er í það minnsta til staðar og félagið hefur rætt við Leverkusen.
Þýska félagið hefur engan áhuga á að missa Diaby á miðju tímabili en fyrir rétt verð gæti hann farið.
Á þessari leiktíð hefur Diaby skorað sex mörk og lagt upp þrjú í fimmtán leikjum í efstu deild Þýskalands.