„Andrúmsloftið sem íslenskir áhorfendur hafa skapað í Kristianstad er einstakt,“ skrifaði sænski sænskur blaðamaður Ola Selby á vefinn handboldskanalen.se eftir að síðustu leikjum riðilsins lauk á mánudagskvöldið. Óhætt er að segja að framganga íslenskra stuðningsmanna hafi glætt þennan fallega smábæ lífi undanfarna daga og ekki síður leikina sem spilaðir hafa verið.
Selby segir raunar að hann muni ekki annað eins. „Ég man ekki eftir að hafa séð neitt þessu líkt á þeim stórmótum sem ég hef fjallað um,“ skrifar hann og bætir við að hann hafi verið í Herning þegar Danir unnu gullið 2019, eftir að hafa lagt Norðmenn í úrslitum.
„Það verður áhugavert að sjá hversu margir Íslendingar fylgja liðinu í milliriðil til Gautaborgar,“ skrifar hann enn fremur og heldur áfram að lofa íslenska stuðningsmenn. „Tvö þúsund íslenskir áhorfendur munu vafalaust yfirgnæfa 8000 sænska. Sænskir stuðningsmenn eiga sannarlega verk að vinna í Scandinavium-höllinni.“
Ákvörðun Guðmundar kom of seint
Selby fjallar líka um frammistöðu íslenska liðsins. Hann bendir á að Guðmundur Guðmundsson hafi gengið mjög nærri útilínuninni sinni, Aroni Pálmarssyni, Gísla Þorgeiri Kristjánssyni og Ómari Inga Magnússyni í leikjunum við Portúgal og Ungverjaland. Það hafi orðið liðinu að falli gegn Ungverjum. Þess utan hafi Sigvaldi Björn Guðjónsson og Bjarki Már Elísson spilað báða leikina frá upphafi til enda. „Hann ákvað að hvíla Ómar Inga og Sigvalda alveg gegn Suður-Kóreu auk þess sem aðrir byrjunarliðsleikmenn spiluðu mun minna en áður. Það var skynsamleg ákvörðun en hún kom aðeins of seint,“ segir blaðamaðurinn.
Íslenski hópurinn, sem hefur til þessa á mótinu rekið lestina þegar kemur að því að mæta í morgunmat á hótelinu var í fyrra fallinu í morgun. Liðið er nú á leið til Gautaborgar þar sem Grænhöfðaeyjar, Svíar og Brasilíumenn bíða þeirra.