Í tengslum við þetta þarf auðvitað að velta fyrir sér hver tekur við af honum. Það er ekki hægt að segja með fullri vissu hver tekur við af Pútín en ákveðin nöfn eru nefnd oftar en önnur í þessu samhengi. Eitt má þó heita nokkuð víst, arftaki Pútíns verður ekki valinn á lýðræðislegan hátt, að minnsta kosti ekki eins og staðan er í Rússlandi núna.
Í nýlegri umfjöllun Dagbladet um hugsanlega arftaka Pútíns kemur fram að einn þeirra sem oft eru nefndir sé Yevgeni Prigoshin, sem er oft nefndur „Kokkur Pútíns“ og er eigandi Wagnerhópsins sem er málaliðafyrirtæki. Auk hans ber nafn Nikolai Patrushev, fyrrum yfirmanns leyniþjónustunnar FSB, oft á góma.
Auk þeirra tveggja er Sergei Sobyanin, borgarstjóri í Moskvu, oft nefndur til sögunnar sem og Dmitry Medvedev, fyrrum forseti, fyrrum forsætisráðherra og núverandi varaformaður rússneska öryggisráðsins. Nafn Sergey Kiriyenko, varastarfsmannastjóra Pútíns, er einnig stundum nefnt til sögunnar.
Vangaveltur um arftaka Pútíns leiða einnig til vangaveltna um hvernig hugsanlega valdaskipti munu fara fram.
„Ég giska á einhverskonar valdarán og það er mikilvægt að eftirmaður Pútíns verði ekki einhver klikkhaus á borð við Prigozhin,“ sagði Jan Hallenberg, forstjóri sænsku utanríkispólitísku stofnunarinnar, í samtali við Dagbladet.
Arne Bård Dalhaug, fyrrum hershöfðingi og yfirmaður norska herráðsins, sagðist ekki sammála því að til valdaráns komi: „Það er engin hefð fyrir því að taka sitjandi leiðtoga af lífi í Rússlandi eða að fremja valdarán. Þetta veltur á hvernig Pútín lætur af völdum, en ég held að langlíklegast sé að eftirmaður hans komi úr þeim hópi sem hann er umkringdur í dag.“
Hann sagðist eiga erfitt með að sjá fyrir sér að valdaskiptin fari fram með lýðræðislegum kosningum, þau muni frekar verða ákveðin innan rússneska hersins og öryggisstofnana.