Rafmagnslaust er á Reykjanesi því Suðurnesjalína 1 fór út. Landsnet hefur sent aðila á staðinn en ekki næst að gera við fyrir leik íslenska karlalandsliðsins í handbolta gegn Suður-Kóreu á síðasta leik Íslands í riðlakeppni heimsmeistaramótsins.
Landsnet greindi frá þessu á Facebook og segist vonast til þess að Suðurnesjamenn séu með hlaðna símana.
HS Veitur greindu frá því rétt í þessu að starfsmenn Landsnets séu sannarlega að láta hendur standa fram úr ermum en viðgerð verði þó ekki lokið fyrir leikinn.
„Nú er eina ráðið að hjúfra sig undir teppi og horfa í tölvum eða símum og senda jákvæða strauma til strákanna okkar í Svíþjóð og starfsmanna Landsnets.“
Í athugasemdum við færslur sem HS Veitur hafa deilt síðan rafmagnið fór sem og sem lögreglan á Suðurnesjum hefur deilt má sjá að íbúar á Reykjanesi hafa haft miklar áhyggjur af leiknum.