West Ham hefur teiknað upp fjögurra manna lista af mönnum sem koma til greina að taka við sem næsti stjóri liðsins.
Það er talið ansi líklegt að David Moyes missi starfið innan tíðar ef gengið fer ekki að batna.
West Ham situr í fallsæti en Moyes hafði fyrir þetta tímabil unnið gott starf hjá félaginu. Félagið tjaldaði miklu til á markaðnum síðasta sumar og væntingarnar voru miklar.
Telegraph segir að West Ham vilji gefa Moyes tíma en samt sem áður teiknar félagið upp næstu kosti sína.
Samkvæmt fréttum eru tveir menn efstir á lista en það eru þeir Thomas Tuchel og Mauricio Pochettino sem báðir eru án starfs.
Um væri að ræða draum fyrir West Ham en ólíklegt er að þeir félagar myndu hoppa á starfið, hinir kostirnir eru sagðir vera Rafa Benitez og Nuno Espirito Santo sem báðir hafa fína reynslu úr enska boltanum.