fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Eyjan

Hiti í Silfrinu er Sólveig og Halldór tókust á – „Ég sagði ekkert um það“

Eyjan
Sunnudaginn 15. janúar 2023 13:00

Samsett mynd - Skjáskot: RÚV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, tókust á í Silfrinu á RÚV í dag. Umræðuefnið var að sjálfsögðu kjaraviðræður síðustu vikna en óhætt er að segja að við samningaborð þessa tveggja félaga sé staðan fyrir löngu orðin stirð.

Efling undirbýr nú verkfallsboðanir en Samtök atvinnulífsins virðast ekki ætla að haggast þar sem búið er að skrifa undir „stefnumótandi kjarasamninga“ við önnur verkalýðsfélög á landinu. „Auðvitað er allt breytt þegar Samtök atvinnulífsins og verkalýðsfélögin hringinn í kringum landið eru búin að ná saman um kjarasamninga,“ útskýrði Halldór í þættinum.

„Til þess að fara yfir það bara á hundavaði: Á undanförnum vikum og mánuðum hafa Samtök atvinnulífsins samið við um það bil 80-85 þúsund manns hringinn í kringum landið. Þar með talið öll félög Starfsgreinasambandsins nema Eflingu, þar með talið við verslunarmenn í kringum landið og iðnaðarmenn. Þegar þessir samningar eru komnir á þá eru þeir það sem við köllum stefnumarkandi kjarasamningar.

Sama samtal og þú ert að vísa í hér varðandi framfærslukostnað, varðandi hækkun launa, þetta samtal hefur átt sér stað við verkalýðsleiðtogana hringinn í kringum landið. Trúnaður Samtaka atvinnulífsins, sem langstærsta viðsemjanda landsins, verður að vera sá gagnvart viðsemjendum sínum, sem eru núna fólkið í landinu, að það geti treyst því að þegar við höfum gengið frá kjarasamningi við jafn stóran hóp manna og raun ber vitni að þá munum við ekki snúa okkur við og gera kjarasamning á einhverjum allt öðrum forsendum gagnvart öðrum viðsemjendum. Þetta er sá trúnaður sem verður að ríkja milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar og fólksins í landinu hins vegar.“

Halldór sagði að það megi vel verið að hægt sé að finna rök fyrir kjarasamningnum sem Efling vill fá en að það sé ekki hægt að samþykkja þá þar sem „nánast öll stéttarfélög landsins“ séu búin að ganga frá kjarasamningum. Yrðu kröfur Eflingar samþykktar þyrftu Samtök atvinnulífsins að taka þá samningana við hin félögin aftur upp.

„Við munum ekki undir neinum kringumstæðum, því við getum það ekki, rofið trúnað við það fólk sem í góðri trú hefur undirritað kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins.“

„Þetta finnst mér vera skrumskæling“

Hiti kom í þáttinn eftir því sem leið á hann. Þegar Halldór sagði að Efling hefði átt að leyfa félögum sínum að kjósa um kjarasamninginn. „Ef þeir hefðu fellt þann kjarasamning þá hefði ég sagt að það væri miklu skiljanlegri nálgun hjá Eflingu að hefja undirbúning aðgerða sem þau hafa gert núna. Í staðinn neita þau félagsmönnum sínum um þann rétt að fá að kjósa um þennan kjarasamning og eins og hún [Sólveig Anna] staðfestir hér í upphafi þáttarins, sem mig hefur lengi grunað, munu þau ætla að fá litla hópa innan Eflingar til að kjósa um verkföll,“ sagði Halldór en við það greip Sólveig framm í fyrir honum.

„Ég sagði ekkert um það að það yrðu litlir hópar og mér finnst þessi málflutningur, hann er náttúrulega fráleitur,“ sagði Sólveig á meðan Halldór bað um að fá að klára mál sitt. „Þetta finnst mér vera skrumskæling… ef ég má klára Sólveig, ef ég má klára Sólveig,“ sagði Halldór.

Sólveig hélt ótrauð áfram: „Má þá Efling velja sér hvern þann kjarasamning sem henni hentar til þess að láta félagsmenn sína kjósa um, kjarasamninga sem hún hefur ekki gert? Þetta er náttúrulega ótrúlegt upplegg, auðvitað virkar þetta ekki svona,“ sagði hún.

„Fyrst að hér er talað um það einhvern veginn að það hafi ekki verið Efling og Samtök atvinnulífsins sem hafi bæði gengið frá samningaborðinu, nei það er auðvitað rétt. Það var Efling sem sleit en vegna þess að Efling var aftur og aftur og aftur búin að koma að borðinu með fyrst ítarlega kröfugerð, skynsamlega og góða, svo með þrjú tilboð. Við mættum á milli jóla og nýárs á það sem ríkissáttasemjari kallaði vinnufund með ítarleg gögn innan úr félagatali Eflingar til að sýna fram á það að okkar málflutningur væri byggður á mjög góðum rökum úr raunveruleikanum. Samtök atvinnulífsins komu á þennan fund með nákvæmlega ekki neitt í höndunum.“

„Um það snýst okkar barátta og við munum hafa sigur“

Undir lokin tók Halldór til máls og sagði að á endanum snérist málið ekki um það hvort hann eða Sólveig Anna væru þverari eða hvort félagið væri með digrari sjóða fyrir verkföll eða verkbönn. „Heldur snýst þetta um það að við tryggjum félagsmönnum Eflingar réttmætar kjarabætur og mín skoðun er sú að það sé mikill meirihluti innan Eflingar til þess að fá þessar kjarabætur núna. Ég hvet Sólveigu Önnu og forystu Eflingar til þess að leyfa félagsmönnum öllum að kjósa um hvort þau vilji samþykkja samninginn.“

Þá vakti Sólveig Anna athygli á stöðu félagsmanna sinna: „65% allra Eflingarkvenna lifa við viðvarandi fjárhagsáhyggjur. Árið 2009 voru 63% Eflingarfélaga í sínu eigin húsnæði, nú eru um það bil 30% í eigin húsnæði, hinir allir fastir á leigumarkaði. Ég trúi því af öllu hjarta, vegna þess að ég trúi því að fólk trúi á réttlátt samfélag, vilji búa í samfélagi velferðar og jöfnuðar, að fólk styðji okkar baráttu, að fólk hafi óbeit á því að hér striti fólk langa daga og komist ekki af. Um það snýst okkar barátta og við munum hafa sigur.“

Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni á vef RÚV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast