Um 80% allra karlmanna verður fyrir einhverjum hármissi, sérstaklega eftir fertug. Þar af er hármissirinn töluvert eða mjög mikill hjá helmingi þeirra.
Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á hversu skalli er mikið áhyggjuefni hjá karlmönnum og getur valdið lágu sjálfsmati og kvíða.
Skalli er ávallt í þremur efstu sætum í rannsóknum um helstu kvíðavalda karlmanna, ásamt heilabilun og getuleysi. Í sumum rannsóknum er hármissir meira að segja ofar hinu tvennu síðarnefnda.
Ekki bara erfðir
Það er til fjöldi kenninga um orsök skalla þótt að oftast sé litið til erfðaþátta, sérstaklega tíðni skalla í móðurætt.
En nú hafa kínverskir vísindamenn komið fram með nýja kenningu hvernig megi draga úr líkum á skalla.
Vísindamenn við Tsinghua háskólann í Peking gerðu rannsókn á tengslum mataræðis og skalla á 1.028 karlmönnum á aldrinum 18 til 45 ára.
Af þeim voru 57,6 prósent með hárlos, sumir meira, aðrir minna. Þeir reyndust drekka að meðaltali 4,293 millílítra af sykruðu gosi og öðrum sætum drykkjum á viku.
Ekki reyndist munur á drykkjum með náttúrulegum sætuefnum, á við ávaxtasafa, og sykruðum drykkjum, eins og gosi.
Hin 42,4 prósent mannanna drukku aftur á móti aðeins 2,513 millílítra af sömu drykkjum í viku hverri.
Meira kaffi, minna kók
Í niðurstöðum rannsóknarinnar segir að ekki sé annað en hægt að álykta að það sé sterk tengsl á milli neyslu sykraðra drykkja og skalla. Ástæðan sé að þeir sem drekki mikið af slíkum drykkjum hafi hærri blóðsykur sem lengi hefur verið tengdur við hárlos.
En í skýrslunni kemur einnig fram að karlmönnum sé óhætt að sykra kaffi og te (í hófi) þar sem koffín vinni gegn hárlosi.
Fjöldi rannsókna um ágæti koffíns við hárlosi styður niðurstöður kínversku vísindamannanna. Ekki bara getur neysla koffíns komið í veg fyrir hárlos heldur getur það jafnvel valdið auknum hárvexti þar sem það eykur blóðflæði til hársekkja sem ýtir undir hárvöxt. Sérstaklega hjá karlmönnum.
Svo það er meira kaffi og minna kók á nýju ári, það er fyrir þá sem hafa áhyggjur af hármissi.
Þeir eru aftur á móti margir karlmennirnir sem eru alsælir með sinn skalla og ætti þeim að vera óhætt að halda áfram að sulla í sykruðu gosi.