Það var rífandi stemming á Hringbraut á föstudagskvöld þegar Bjarni Helgason blaðamaður Morgunblaðsins mætti og ræddi fréttir vikunnar hjá Benna Bó ásamt Herði Snævar Jónssyni, fréttastjóra íþrótta hjá Torgi.
Andri Rúnar Bjarnason fékk samningi sínum við ÍBV rift í vikunni og skoðar nú kostina sína. Þessi 32 ára framherji var aðeins í ár hjá ÍBV en hann skoraði tíu mörk í sumar.
„Ég hef heyrt tvo möguleika í stöðunni, að hann endi á Hlíðarenda. Patrick Pedersen er meiddur og það virðist smá óvissa,“ sagði Hörður Snævar.
„Valur getur tekið þennan launapakka, vel yfir milljón á mánuði.“
Hörður telur þó líklegast að að Andri endi í Grindavík þar sem hann átti áður góða tíma. Liðið leikur í næst efstu deild en er stórhuga.
„Ég held að það sé líklegast að hann endi í Grindavík, þar er til nóg af peningum eftir söluna á Vísi. Þeir eru stórhuga og ætla sér upp, það er líklegast. En heyrt að Valur sé einnig á borðinu.“