Trú – Skýr markmið – Jákvætt viðhorf – Einbeiting á eigin getur/skýr hlutverk. Þetta eru þau fjögur atriði sem eru lykillinn að því að skila íslenska landsliðinu á verðlaunapall á HM í handbolta, að mati Loga Geirssonar, handboltasérfræðings og fyrrverandi verðlaunahafa með íslenska landsliðinu.
Logi fer yfir þetta í viðtali við Fréttablaðið í dag. Logi vann silfur á Ólypmíuleikunum sem leikmaður með íslenska landsliðinu, og brons á EM. Hann segir að á þeim tíma þegar landsliðið var sigursælast hafi það einbeitt sér að eigin getu og styrk en hugsað minna um andstæðinginn:
„Hvað við gætum gert vel og hugsuðum minna út í andstæðinginn, í hverju þeir væru góðir. Við unnum í okkur sjálfum og hugsuðum miklu frekar hvað við værum góðir og hvað andstæðingurinn þyrfti að gera til þess að vinna okkur. Við lærðum að vera stóra liðið, það hefur oft vantað í landslið Íslands.
Þegar svona sigurvegarar fara úr liðinu líkt og gerðist með landsliðið á sínum tíma þá þurfa bara nýir að koma inn, það kemur nýr kúltúr inn í liðið og þeir sem hafa náð að vinna, leikmenn eins og Aron Pálmarsson, þurfa að telja hinum trú um að við getum þetta. Við efldum liðsheildina á sínum tíma, skilgreindum okkar hlutverk, allir vissu sín hlutverk.“
Logi er á því að við þurfum að hugsa stórt og þora setja okkur stór markmið:
„Fegurðin við markmiðasetningu er þannig að um leið og þú hefur sett þér markmið sem þú ætlar að reyna að ná, þá ferðu að spyrja þig: Hvað þarf ég að gera til þess að ná þessum markmiðum? Það er þá sem töfrarnir eiga sér stað.“
Logi segir ennfremur að jákvætt viðhorf sé mjög mikilvægt. Segir menn hafi breytt viðhorfi sínu í liðinu sem varð sigursælast í íslenskri handboltasögu og vann til verðlauna á Ólympíuleikunum og EM:
„Við breyttum því hvernig við töluðum í landsliðinu, sögðum enga neikvæða hluti. Við töluðum ekki um að vera að eyða tíma saman á hótelinu í landsliðsverkefnum, við töluðum um að verja tíma saman. Inni á vellinum kölluðum við aldrei „Strákar! Engar tvær mínútur,“ það var neikvætt, í stað þess sögðum við „Halda sér inn á“.“
Jákvæða viðhorfið hafi verið gegnumgangandi í landsliðsverkefnum, sama hvort um hafi verið að ræða aðstæður utan eða innan vallar.
„Þetta var í rútunni, þetta var á hótelinu, æfingum og í leikjunum. Óli Stef á heiðurinn af þessu, hann breytti þessu á alveg magnaðan hátt, maður upplifði stóra breytingu.““
Sjá nánar á vef Fréttablaðsins