Þáttarstjórnendur hlaðvarpsins 70 mínútur, þeir Hugi Halldórsson og Sigmar Vilhjálmsson, sem oftast er kallaður Simmi Vill, ræddu um skessumálið svokallaða, sem olli miklum titringi hér á landi fyrr í vikunni, í nýjasta þætti hlaðvarpsins sem kom út í dag.
„Það er spurning hvort við verðum einfættir eftir að hafa rölt í gegnum þetta sprengjusvæði,“ segir Hugi áður en talið berst að málinu. „Þetta er ekkert sprengjusvæði,“ segir Simmi og fer svo í að útskýra málið með sínum orðum. Áður en hann gerir það tala þeir þó báðir aðeins um Eyjamenn og lýsa sinni skoðun á þeim. „Já, já, Vestmannaeyingar eru stórfurðulegt fólk en þeir eru yndislegir,“ segir Simmi. „Þetta er svona okkar Flórída,“ skýtur Hugi inn í.
„Ég hef aldrei hitt leiðinlegan Eyjamann, ég hef aldrei hitt óhjálpsaman Eyjamann. Ef ég þekki Eyjamann þá er hann duglegur, hann er hjálpsamur og hann er skemmtilegur. En þeir kannski gerðu upp á bak þarna í þessu máli,“ segir Simmi og fer svo yfir málavexti:
„Það er búið að vera hefð á þrettándanum að vera með tröllkall og skessu sem labba og þau heita eitthvað. Oftast heitir tröllkallinn Gauji litli og oftast heitir skessan Gauja litla. Ef ég héti Gauji litli þá myndi ég nú alveg kannski segja svona: „Ha? Af hverju heitir tröllkallinn bara alltaf Gauji litli?“ Síðan er Gauji litli skýrður eitthvað, fær á sig miða og hann er málaður, notabene þá eru þessi líkneski notuð aftur og aftur – bara máluð upp á nýtt, sett í nýjan búning og svo eru þau bara geymd á lager fram á næsta þrettánda.“
Simmi bendir á að í ár hafi Gauji litli verið merktur „Coach Heimir“ og klæddur í arabískan fatnað. Það hafi verið gert því Heimir var knattspyrnuþjálfari í Katar en nú er hann þó að þjálfa landslið Jamaíka.
„Síðan var Gauja litla skýrð „Edda Flak“ og ég skal viðurkenna það…“ segir Simmi svo en við það fer Hugi að hlæja. Hugi tekur svo fram að hann sé ekki að hlægja að málinu sjálfu heldur að því að þeir séu að hætta sér út í að tala um það.
Simmi klárar að útskýra málið og kemur svo með sitt innlegg í umræðuna: „Þetta er málið, ég er ekki búinn að segja neitt annað en frá málavöxtum. Ég vona að fólk sé ekki að missa sig yfir því að ég sé að segja frá því sem gerðist. En ef ég fæ að blanda minni skoðun inn í þetta og núna er ég að fara að henda inn minni skoðun: Af hverju skýrðu þeir hana „Edda Flak“ en ekki bara Edda Falak?“
Hugi svarar Simma og segist telja að Eyjamennirnir hafi „gleymt að skrifa A“ en Simma fannst það ólíklegt. „Nei, þeir gleymdu því ekki neitt,“ segir Simmi en Hugi stendur fast á sínu. „Þetta átti alltaf að vera Edda Falak,“ segir Hugi en þá spyr Simmi hvort hann hafi heimildir fyrir því. „Nei ég hef engar heimildir fyrir því en þessi brandari var bara það illa skrifaður að þeir gleymdu að skrifa A,“ segir Hugi þá við því.
„Var húmorinn rætinn? Því ég er þeirrar skoðunar að það megi gera grín að öllu, það eru alls ekki allir sammála því, svo fremur sem brandarinn kemur af góðum stað, skilurðu hvað ég á við? Þú getur komið af einhverjum stað sem þú ert að reyna að segja eitthvað fyndið, það getur verið sjokkerandi, tabú, það getur verið rosalega margt sem er undir flokknum húmor. Í rauninni er allt fyndið, þeir sem pæla mikið í húmor vita bara að það er allt fyndið. Svo finnst þér eitthvað ekki fyndið og svo finnst þér eitthvað fyndið, það er þitt persónulega mat. Þetta er svona eins og matargerð, þér finnst þessi matur bara ekki góður, ætlarðu þá að banna hann? Nei, þú bara fílar ekki papriku,“ segir Simmi.
„En af því þau skýrðu skessuna „Flak“ þá er þetta svona: „Ahh, þetta er rætið.“ Þá er hægt að fara að lesa fullt af öðrum hlutum út úr því.“
Hugi bendir þá að Edda er ekki frá Eyjum og að það tíðkist að merkja skessurnar með Eyjamönnum. „Ég held að þetta sé svona hluti af þessu, hún sé svona „semi“ ekki velkomin til Vestmannaeyja og eitthvað svona.“
Simmi segir að síðan hafi Edda orðið „pirrípú“ yfir þessu og Hugi segist skilja það. „Auðvitað, mér hefði ekki fundist þetta fyndið, bara ekki neitt. Ég myndi ekkert vilja hafa nafnið mitt á einhverri tröllskessu, bara punktur. Ég er ekkert viðkvæmur fyrir því, ef þetta hefði verið á Krók og ég hefði verið eitthvað tröll þá hefði ég verið svona „já við höfum náttúrulega alltaf gert þetta“ og ég hefði skilið aðeins leikinn. Þarna eru þau að setja Eddu Falak sem kemur Eyjamönnum bara ekkert við, þetta er algjörlega „irrelevant.““
Þá segir Simmi að Edda sé að standa sig mjög vel í því sem hún gerir. „Hún vekur athygli og hún hefur heldur betur náð árangri með það sem hún valdi sér að gera. Það sem hún hins vegar segir hérna – og nú spyr ég bara hvort það sé ekki verið að taka hér of djúpt í árina – þegar hún segir hér að enginn hafi beðið hana afsökunar. Það var eftir að hún benti á það að þau gerðu upp á bak, ég ætla að taka undir það,“ segir hann.
„Bara það að hafa sett „Flak“, þar byrjarðu á því að segja mér að þú ert ekki að koma af góðum stað, þú ert að koma af rætnum stað, þú ert ekki að hlægja með heldur ertu að hlægja að og jafnvel eitthvað meira.“
Simmi fer þá yfir ummæli sem Edda lét falla í kjölfar málsins: „Hér er heilt íþróttafélag og bæjarfélag að hvetja til ofbeldis og stóri boginn er að segja konum að halda kjafti þegar þeim er nauðgað.“
Ljóst er að Simmi er ekki sammála þessum ummælum Eddu. „Það er of mikið,“ segir hann en Hugi segist skilja hvaðan hún kemur. „Hvort það sé of mikið eða ekki er svo bara matsatriði hvers og eins.“
Hægt er að hlusta á umræðurnar og þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan: