Minni fólks er misjafnt og virðist það hafa brugðist Harry Bretaprins, minnst einu sinni og jafnvel oftar, í ævisögu hans Spare sem kom út í gær.
Fyrr í dag greindi Fókus frá því að Harry hafi ranglega haldið því fram að hann hafi verið staddur í heimavistarskólanum Eton þegar hann fékk þær fregnir að Elísabet drottningarmóðir væri látin. Hið rétta hafi verið að hann hafi á þeim tíma verið í skíðaferð í Sviss með föður sínum og og bróður þegar drottningarmóðirin lést.
Eins hafi Harry skrifað í bók sinni að móðir hans hafi gefið honum Xbox tölvu áður en hún lést, en það er ómögulegt þar sem leikatölvan kom ekki út fyrr nokkrum árum eftir að prinsessan lét lífið.
Sjá einnig: Trúverðugleiki Harry dreginn í efa eftir að upp komst um villur í bókinni
Nú hafa fjölmiðlar og fleiri bent á aðrar líklegar villur í bókinni.
The Sun greinir frá því að Harry haldi því fram í bókinni sem og í viðtölum sem hann hefur gefið að stjúpmóðir hans, Camilla drottning, hafi lekið fréttum af fyrsta fundi hennar og Vilhjálmi Bretaprins.
Raunin sé að málið sé mun flóknara en það. Þetta hafi ekki verið viljandi leki heldur hafi aðstoðarkona, sem var sagt um fund þeirra Camilllu og Vilhjálms í trúnaði, deilt þeim upplýsingum með eiginmanni sínum sem hafi svo deilt þeim með samstarfsmanni og sá hafi leitað á náðir götublaðanna með þær upplýsingar.
Í kjölfarið hafi aðstoðarkonan sagt starfi sínu lausu og beðist formlega afsökunar á sínum hlut í málinu.
Harry segist í bókinni að á fyrsta stefnumóti hans og Meghan hafi hún verið ótrúlega falleg og smart í svartri peysu, gallabuxum og hælum. Meghan hefur hins vegar áður sagt að hún hafi verið í bláum kjól á stefnumótinu. Hún greindi jafnframt frá því að hafa tekið þráð úr umræddum bláa kjól og saumað inn í brauðkaupskjól sinn og notað sem „eitthvað blátt“ að amerískum sið.
Harry rifjar upp í bókinni hvernig hann hafi grátbeðið föður sinn um að giftast ekki Camillu. Hann greinir líka frá brúðkaupi þeirra árið 2005 og hann hafi „vitað án þess að um það yrði efast að þetta hjónaband myndi ræna pabba frá okkur“ og að tilfinningar hans hafi verið blendnar þann daginn.
Fyrrum konunglegi brytinn Grant Harrold hefur þó efast um sannleiksgildi þessa og greindi frá því að hann hafi verið viðstaddur brúðkaupið og þar hafi ekki annað mátt sjá en að Harry væri fullkomlega hlynntur hjónabandinu.
Í eftirmála bókarinnar ræðir Harry um þann sorgardag í september 2022 þegar hann frétti að amma hans, Elísabet drottning, væri látin.
Hann sagði að hann hafi frétt af andlátinu í gegnum vefsíðu BBC fremur en sinni eigin fjölskyldu.
Heimildarmenn innan hallarinnar hafa þó hafnað þessu og segja að Harry hafi verið upplýstur áður en formleg yfirlýsing var send fjölmiðlum, það hafi verið samkvæmt beiðni Karls konungs sem hafi viljað tryggja að sonur hans frétti það á undan fjölmiðlum.