Allþungir fangelsisdómar hafa á undanförnum dögum verið kveðnir upp yfir tveimur mönnum sem virðast hafa flutt mikið magn af kókaíni til landsins gegn greiðslu.
Annar maðurinn er frá Gana en hann kom til landsins miðvikudaginn 2. nóvember 2022 með rétt rúmt kíló af kókaíni innvortis. Efnin flutti hann frá Frankfurt í Þýskalandi.
Maðurinn játaði brotið án undandráttar. Í dómnum segir:
„Af rannsóknargögnum málsins verður ekki séð að ákærði hafi verið eigandi fíkniefnanna en þó virðist sem hann hafi samþykkt að flytja efnin til landsins gegn greiðslu. Verður litið til þessara atriða við ákvörðun refsingar sem og skýlausrar játningar ákærða á rannsóknarstigi og fyrir dómi. Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því litið að ákærði flutti talsvert magn af sterku kókaíni til landsins ætlað til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.“
Þrátt fyrir það sem manninum er virt til refsilækkunar var hann dæmdur í 17 mánaða fangelsi, tæplega eitt og hálft ár.
Hinn maðurinn er hollenskur og kom hingað til lands þann 10. nóvember með tæplega 900 grömm af kókaíni innvortis. Maðurinn var að koma frá Brussel í Belgíu.
Rétt eins og Gana-maðurinn játaði sá hollenski sök án undanbragða. Í hans tilviki er einnig álitið að hann eigi ekki fíkniefnin og hafi flutt þau fyrir annan aðila til landsins gegn greiðslu. Var hann dæmdur í 14 mánaða fangelsi.
Báðir mennirnir þurfa að borga málskostnað, hvor upp á tæpar tvær milljónir. Inni í því er kostnaður vegna magngreiningar, matsgerðar rannsóknarstofu Háskóla Íslands og þóknun skipaðs verjanda á rannsóknarstigi málsins og fyrir dómi. Einnig þarf að greiða fyrir aksturskostnað verjanda.
Báðir dómarnir voru kveðnir upp við Héraðsdóm Reykjaness.