Washington Post skýrir frá þessu og segir að rannsóknin, sem var gerð undir forystu vísindamanna við Brigham Young háskólann, hafi leitt í ljóst að vatnsmagnið í vatninu hafi minnkað niður í 37% af því sem áður var.
Miklir þurrkar hafa verið í vesturhluta Bandaríkjanna um langa hríð og hafa loftslagsbreytingarnar aukið þá enn frekar og þar með hefur vatnsmagnið minnkað enn hraðar en vísindamenn höfðu spáð.
Vísindamennirnir segja að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til, dugi ekki til að bæta upp þá 40 milljarða gallona vatns sem vatnið hefur misst árlega síðan 2020. Þeir hvetja Utah og nærliggjandi ríki til að draga úr vatnsnotkun um þriðjung, að öðrum kosti stefni í óafturkræft hrun.