The Guardian skýrir frá þessu og segir að samkomulagið þýði að breskir sjúklingar muni fá aðgang að tilraunum með mögulegar meðferðir sem eru byggðar á mRNA tækni, þar á meðal bóluefnum gegn krabbameini. Þetta gerist hugsanlega í haust.
mRNA meðferðir eru sérsniðnar að hverjum einstaklingi og styrkja ónæmiskerfið með erfðalyklum krabbameinsins sem er verið að takast á við hverju sinni. Með þessu getur ónæmiskerfið tekist á við æxlið eitt og sér en þegar lyfjameðferð er beitt þá verða margar frumur fyrir barðinu á henni um leið og æxlið.
BioNTech vann með lyfjafyrirtækinu Pfizer við að þróa mRNA bóluefni gegn kórónuveirunni sem hefur herjað á heimsbyggðina síðustu árin.
The Guardian segir að samstarf fyrirtækisins og breskra stjórnvalda geti orðið til þess að fyrir 2030 fái Bretar 10.000 skammta af sérsniðnum lyfjameðferðum gegn krabbameini.