Viðtölin fóru fram í Madrid á Spáni og sá ráðningarfyrirtækið Meccti um þau. Bild skýrir frá þessu og vitnar í spænska dagblaðið El Diario.
Fram kemur að konurnar hafi verið boðaðar í atvinnuviðtal á Meliá Barajas, sem er fjögurra stjörnu hótel.
Einni var hafnað í fyrstu umferð af því að hún þótti of gömul en hún er 37 ára. Annarri var hafnað af því að hún var með lítið ör við aðra augabrúnina. Enn öðrum var hafnað af því að þjóðerni þeirra þótti ekki rétt.
Þegar kom að annarri umferð voru konurnar kallaðar hver á fætur annarri inn í hótelherbergi. „Fyrsta konan kom grátandi út og sagði okkur að maður væri beðinn um að fara úr nánast öllum fötum. Maður mátti bara vera í nærfötunum. Þetta var fyrsta atvinnuviðtalið hennar, nokkru sinni. Hinar konurnar sögðu sömu sögu,“ sagði Bianca, 25 ára, í samtali við El Diario.
Sjálf var hún beðin um að lyfta kjólfaldi sínum aðeins. „Ég lyfti honum upp, þar til hann var rétt undir hnjánum. Ein af konunum frá ráðningarskrifstofunni lyfti honum alveg upp að nærbuxunum,“ sagði hún og bætti við að hún hafi að lokum staðið á nærbuxunum og brjóstahaldaranum einum saman. Henni var sagt að þetta væri gert til að ganga úr skugga um að hún væri ekki með ör, fæðingarbletti eða húðflúr.
Önnur kona sagði að henni hafi verið hafnað af því að hún er dökk á hörund. „Mér fannst ég niðurlægð og mismunað. Ég var bara vara og þetta hefur haft mikil áhrif á mig,“ sagði hún.
Sögur kvennanna voru bornar undir Kuwait Airlines sem sagði að fyrirtækið hafi notað sama ráðningarfyrirtækið í fimm ár en aldrei áður hafi svo alvarlegar ásakanir komið fram á hendur fyrirtækinu. Í svari fyrirtækisins segir einnig að aðferðir af þessu tagi verði ekki liðnar í framtíðinni.