Fabio bakvörðurinn knái frá Brasilíu hefur skrifað undir samning við Gremio í heimalandinu.
Hann kemur til félagsins frá Nantes í Frakklandi þar sem hann hefur verið undanfarin ár. Forráðamenn Gremio eru stórhuga en þeir sömdu við Luis Suarez á dögunum.
Suarez ákvað að fara til Brasilíu eftir stutta dvöl í heimalandi sínu, Úrúgvæ.
Fabio er 32 ára gamall en hann var í sex ár hjá Manchester United ásamt Rafael, en þeir eru tvíburabræður. Fabio gerir tveggja ára samning við Gremio.
Fabio var í fjögur ár hjá Nantes og varð bikarmeistari með liðinu en aðilar komust að samkomulagi um að rifta samningum á dögunum.