Arnar Grétarsson þjálfari Vals í Bestu deild karla var gestur í hlaðvarpinu Vængjum þöndum sem stuðningsmenn félagsins sjá um.
Fyrrum stjörnublaðamaðurinn Breki Logason og blaðasnápurinn Benedikt Bóas Hinriksson settust niður með Arnari í vikunni.
„Við stefnum ekki á annað sætið, Valur er þannig félag hvort sem það er í kvenna eða karla. Krafan er að keppa um titla og við ætlum að keppa um þá,“ segir Arnar sem var ráðinn þjálfari Vals síðasta haust.
Arnar vann frábært starf með KA áður en hann tók skrefið á Hlíðarenda. Valur hefur í vetur fengið Kristin Frey Sigurðsson og Elfar Frey Helgason til félagsins en Arnar segir Val horfa til yngri manna, báðir eru komnir yfir þrítugt.
„Markmiðið er að fara bara í leikmenn sem eru 35 plús, reyna að borga þeim bara mjög vel,“ sagði Arnar og grínaðist þar sem skýrslu Grétars Rafns Steinssonar sem Fréttablaðið birti á dögunum.
„Að öllu gríni er slepptu, þeir eru ekki yngstu mennirnir. Við höfum verið að setja smá vinnu í það áður en við semjum,“ segir Arnar og sagði líkamlegt ástand Kristins og Elfars vera gott, báðir hefðu farið í ítarlega læknisskoðun áður en skrifað var undir.
„Markmiðið er að reyna að draga inn unga og efnilega, við ætlum okkur að ná í 3, 4 eða 5 leikmenn í hópinn. Það eru átta leikmenn farnir og svo erum við að reyna að finna lausn fyrir Guy Smit. Hann meiðist í fyrra, rosalega flottur markvörður en Frederik kemur. Hann er besti markvörðurinn á Íslandi, við erum að reyna að finna lausn fyrir hann. Ég á ekki von á því að fleiri fari,“ sagði Arnar.
„Við erum að reyna að taka alla vegana fjóra inn og ég vona að það verði ungir strákar með, það ætti að vera Valur sem er spennandi fyrir unga leikmenn. Ef ég væri umboðsmaður þá myndi ég skoða besta aðbúnaðinn, ég veit ekki hvort einhver geti gert það sem við erum að gera,“ sagði Arnar en Valur æfir alltaf á morgnana og leikmenn fá hádegismat á vellinum beint eftir æfingu.
Arnar segir Val hafa reynt við marga unga leikmenn en að umboðsmenn virðist helst ýta þeim í tvö bestu lið landsins, Víking og Breiðablik.
„Við erum búnir að vera djöflast á fullu, þó það sjáist ekki mikið. Það er stanslaust verið að, ég veit ekki hvort einhverjir verði fúlir út í mig. Það eru ekki margir umboðsmenn á Íslandi, við getum sagt að Víkingur og Breiðablik eru með betri tengingar í þessa aðila. Það er bara eins og staðan er, það líður að því að þessi tvö lið eru vel mönnuð. Valur er að setja áherslu á það að fá unga leikmenn, þú getur tekið bestu leikmennina sem hafa átt frábæran feril og fengið þá í Val. Þú vilt líka fá unga leikmenn, vera með 5-6 unga sem er hægt að selja,“ sagði Arnar en flestir ungir íslenskir leikmenn eru á mála hjá Stellar umboðsskrifstofunni þar sem Bjarki Gunnlaugsson ræður ríkjum hér á landi.