Al-Nassr fékk til sín eina stærstu stjörnu fótboltans, Cristiano Ronaldo, á dögunum en ætlar ekki að hætta þar.
Ronaldo gekk í raðir sádi-arabíska félagsins á frjálsri sölu. Hann verður launahæsti íþróttamaður heims.
Al-Nassr vill halda áfram að bæta við sig stórum nöfnum úr Evrópuboltanum. Nú beinir félagið sjónum sínum að Sergio Busquets.
ESPN greinir frá því að Al-Nassr vilji hinn 34 ára gamla Busquets og að félagið sé til í að bjóða kappanum 13 milljónir á ári næsta sumar til að fá hann frá Barcelona.
Samningur miðjumannsins við Börsunga rennur út eftir tímabilið og þyrfti Al-Nassr því aðeins að semja við hann sjálfan.
Busquets hefur þó átt í viðræðum við Inter Miami í MLS-deildinni undanfarið en ekki hefur verið skrifað undir neitt þar. Spánverjinn hefur lýst yfir áhuga á að spila í Bandaríkjunum.
Fleiri stór nöfn hafa verið orðuð við Al-Nassr. Þar á meðal er N’Golo Kante. Samningur hans við Chelsea rennur út næsta sumar og spilar hann sömu stöðu og Busquets.