Kvöld eitt hittast sjö gamlir og góðir vinir, þar af þrjú pör og einn fráskilinn, í kvöldverðarboði. Geðlæknirinn í hópnum stingur upp á leik þar sem hver og einn leggur síma sinn á borðið. Þegar þau fá símtal, SMS, Whatsapp skilaboð, Messenger skilaboð eða tölvupóst, þurfa þau að svara eða lesa skilaboðin upphátt. Allir samþykkja þetta þar sem enginn þykist hafa neitt að fela.
Leikurinn, eins og hann spilast út í „Perfect Strangers“, (Perfetti Sconoscuti) upprunalegu ítölsku kvikmyndinni frá árinu 2016, sem leikstýrt er af Paolo Genovese, veldur fljótlega ringulreið. Framhjáhöld opinberast, óvænt ólétta kemur í ljós og upp kemst um samkynhneigð sem falin var inni í skáp.
Greinin birtist fyrst á Kvikmyndir.is.
Tekjur kvikmyndarinnar um heim allan eru nú komnar upp í um þrjátíu milljónir bandaríkjadala, jafnvirði 4,3 milljarða íslenskra króna. Handritið vann verðlaun á Tribeca kvikmyndahátíðinni í New York. Kvikmyndin hefur frá því hún var frumsýnd á Ítalíu verið endurgerð í meira en tuttugu löndum – sem er mögulega met hvað endurgerðir varðar, amk. á síðustu árum.
Íslenska endurgerðin Villibráð kemur í bíó núna 6. Janúar og dönsk útgáfa er væntanleg í síðar á árinu. Aðrar endurgerðir eru einnig á leiðinni.
En hvað er það sem gerir „Perfect Strangers“ svona tilvalda til endurgerðar? The Economist fjallar um málið og hefur eftir Annette Insdorf hjá Colombia University að uppbygging söguþráðarins sé einföld, hrein og bein, og leyfi höfundi í hverju landi að laga menningarleg atriði að handritinu.
Til dæmis borða ítölsku gestirnir Gnocchi pasta og þeir íslensku borða hreindýr. Frönsku gestirnir koma með rauðvín með sér og þeir suður-kóresku bjóða upp á pappírsþurrkur, sem er tákn um gott gengi.
Ólík félagsleg staða hvers lands kemur einnig vel fram í endurgerðunum þegar þær eru bornar saman. Í arabísku myndinni, sem gerist í Beirút, og kom út á Netflix í fyrra, er einn gesturinn húsmóðir sem elur börn sín upp með hjálp fjölskyldumeðlims sem býr inni á heimilinu.
Á ítalska heimilinu er einnig fjölskyldumeðlimur sem býr á heimilinu en móðirin vinnur hins vegar úti. Í íslensku útgáfunni hefur faðirinn tekið að sér stóran hluta af umsjón barnanna en ekkert er minnst á stórfjölskylduna. Í ítölsku útgáfunni bregst einn gestanna við með fordómafullum hætti þegar í ljós kemur að einn úr hópnum er samkynhneigður. Slíkt hefði alltaf þótt úrelt í dönsku myndinni, þar sem sambönd samkynhneigðra eru almennt viðurkennd í Danmörku. Í dönsku útgáfunni er persónan inni í skápnum einungis af því að hún er gift manni.
En heildarþemað í kvikmyndinni, um það hve einstaklingarnir eru orðnir háðir tækninni og hvernig fólk reynir að eiga sér einkalíf, er nokkuð sem á við í vel flestum löndunum sem endurgert hafa myndina. Í þeim ítölsku, suður-kóresku og arabísku slúðra gestirnir um sameiginlegan vin og það hvernig konan hans fann út um framhjáhald hans með því að skoða símann hans. Hjónabandið, sem brast við þetta, verður til þess að vinirnir fara í leikinn góða og deila símtölum, SMS og öðrum skilaboðum við kvöldverðarborðið.
„Perfect Strangers“ gæti einnig höfðað til kvikmyndaframleiðanda því það kostar ekki mikið að gera myndina. Leikarar eru fáir og myndin gerist að mestu í einu herbergi.
Frægir leikarar hafa leikið í endurgerðunum, einkum vegna möguleikans sem gefst á að spreyta sig á áhugaverðum persónum. Í ítölsku upprunalegu myndinni leikur Valeriu Mastandrea, sem hefur unnið nokkur David di Donatello verðlaun, Óskarsverðlaun þeirra Ítala. Á Íslandi leikur Hilmir Snær Guðnason aðalhlutverk, sem er margverðlaunaður fyrir sín störf. Mona Zaki, frægur egypskur leikari lék í arabísku útgáfunni ásamt Nadine Labaki, líbönskum leikara og leikstjóra.
En eitt land vantar af einhverjum ástæðum á listann yfir þau lönd sem hafa endurgert kvikmyndina. Hollywood endurgerir oft kvikmyndir á ensku, og sendir þær svo textaðar eða með tali yfir, um allan heim. Ef Hollywood hefði gert þetta með Perfect Strangers hefði það latt önnur lönd í að endugera kvikmyndina, eins og Economist segir frá. ( þetta var t.d. máilð með Three Men and a Baby“ og The Upside, sem voru endurgerðir á frönskum kvikmyndum). Enn hefur ekki verið gerð endurgerð af Perfect Strangers með ensku tali.
Fyrirtæki Harvey Weinstein, sem nú er gjaldþrota, keypti réttinn til endurgerðar árið 2017 eins og Economist bendir einnig á. Árið 2019 tilkynnti Issa Rae, leikkona og framleiðandi, að hún myndi gera kvikmyndina fyrir bandaríska áhorfendur, en lítið hefur frést af málinu síðan. Hollywood hefur þar með skilið eftir gat á markaðnum fyrir alþjóðlega sögumenn að blómstra.
Leikstjóri: Elsa María Jakobsdóttir
Handrit: Elsa María Jakobsdóttir og Tyrfingur Tyrfingsson.
Leikarar: Hilmir Snær Guðnason, Nína Dögg Filippusdóttir, Gísli Örn Garðarsson, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Björn Hlynur Haraldsson, Aníta Briem, Hilmar Guðjónsson.