Baráttuhópurinn Öfgar hefur birt skjáskot úr fréttum RÚV sem sýnir Harald Pálsson, framkvæmdastjóra ÍBV, standa fyrir framan umtalaða skessu eftir að letrað hafði verið á hana „Edda Flak“, á undirbúningskvöldi fyrir Þrettándagleði ÍBV.
Mannlíf greindi fyrst frá þessu máli sem hefur mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum undanfarinn sólarhring og var málið meðal annars tekið fyrir í kvöldfréttum RÚV í gærkvöld. Þrettándagleði ÍBV var auglýst með þessum orðum: „Flugeldasýning, blysför, álfabrenna, jólasveinar, tröll, tónlist og margt fleira. Gangan hefst við Hánna og gengið verður upp Illugagötu, niður Höfðaveg og að malarvellinum þar sem hinar ýmsu kynjaverur heilsa upp á gesti.“
Hefð er fyrir því að stilla upp tröllskessum á skemmtuninni sem eru eftirmyndir lifandi fólks. Mörg undanfarin ár hefur Páley Borgþórsdóttir, fyrrverandi lögreglustjóri, verið fyrirmynd skessunnar en að þessu sinni voru það Heimir Hallgrímsson, knattspyrnuþjálfari, sem klæddur var í arabískan fatnað og Edda Falak hlaðvarpsstjórnandi og baráttukona, en á skessuna sem á að vera eftirmynd hennar er letrað uppnefnið „Edda Flak“.
Í viðtölum við fjölmiðla um helgina má skilja á Haraldi Pálssyni, framkvæmdastjóra ÍBV, að hann hafi ekki vitað af uppátækinu, en hann segir í viðtali við RÚV að ekki hafi verið ásetningur að vera með leiðindi í garð Eddu Falak.
„Við vissum ekki að það stæði til að merkja aðra skessuna Eddu Flak. Hóparnir setja, í raun og veru skessurnar um á malarvöll og þegar gangan kemur upp á malavöllinn þá eru þær staðsettar þar,“ sagði Haraldur í viðtali við RÚV. Öfgar segja að þetta séu ósannindi og birta skjáskot úr frétt RÚV þar sem sýnt er frá undirbúningskvöldi þrettándagleðinnar en Haraldur virðist þar ganga inn í mynd beint fyrir framan skessuna. Öfgar skrifa á Twitter:
„Á meðfylgjandi myndum má sjá Harald Pálsson ganga um smiðjuna á undirbúningskvöldinu, sem staðfest er af RÚV og standa fyrir framan umrædda skessu eftir að ritað hafði verið á hana. Hættið að ljúga ÍBVsport. Þið ættuð að vera búin að kynnast því að Öfgar komast að öllu.“
Á meðfylgjandi myndum má sjá Harald Pálsson ganga um smiðjuna á undirbúningskvöldinu, sem staðfest er af RÚV og standa fyrir framan umrædda skessu eftir að ritað hafði verið á hana.
Hættið að ljúga @IBVsport
Þið ættuð að vera búin að kynnast því að Öfgar komast að öllu. pic.twitter.com/BQHVfMJ0Hc— Öfgar (@ofgarofgar) January 8, 2023