Stéttarfélagið Efling hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem samningstilboði Samtaka atvinnulífsins (SA) er hafnað. SA býður sambærilegar launahækkanir og samið var um við Starfsgreinasambandið (SGS) á dögunum. Segir Efling að taka verði tillit til sérstöðu félagsmanna í ljósi annarrar samsetningar starfa og annars starfsaldursmynsturs, og hærri framfærslukostnaðar á höfuðborgarsvæðinu.
Efling segir að greinargerð með tilboð SA sé villandi, sérstaklega hvað varðar kaupmáttarþróun út frá samningnum við SGS. Horft sé framhjá því að sú launatafla sem SA kynni færi stórum hluta Eflingarfélaga minni kjarabætur en landsbyggðarfélögin.
„Í greinargerð SA eru taldar allar launahækkanir úr Lífskjarasamningi frá 2020 (bæði taxtahækkanir og hagvaxtarauki) og þær lagðar saman við hækkun í SGS-samningnum. Þetta býr til stórlega ýkta mynd af launahækkunum sem raktar eru til samnings SGS frá nóvember síðastliðnum,“ segir í yfirlýsingu Eflingar.
Sem fyrr segir telur Efling að tilboðið taki ekki tillit til þess að mun dýrara sé að búa á höfuðborgarsvæðinu þar sem þorri félaga Eflingar býr og starfar, en á landsbyggðinni. Er þar sérstaklega tiltekinn húsnæðiskostnaður:
„Hér á landi er það svo að húsnæðiskostnaður bæði fyrir eigendur íbúða og leigjendur hefur verið mun hærri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Á síðustu tíu árum hefur húsnæðiskostnaður á höfuðborgarsvæðinu hækkað með fordæmalausum hætti, þannig að um met er að ræða meðal Evrópuþjóða. Á sama tíma hefu dregið úr húsnæðisstuðningi hins opinbera.“
Yfirlýsingu Eflingar er í heild má finna hér.