Það voru leikmenn Chelsea sem sannfærðu varnarmanninn Fikayo Tomori um að ganga í raðir AC Milan á Ítalíu.
Tomori tók hugrakka ákvörðun í byrjun 2021 og samdi við Milan en hann hafði allan sinn feril verið samningsbundinn Chelsea.
Tækifærin á þeim tíma voru þó af skornum skammti og eftir að hafa rætt við liðsfélaga sína í Chelsea ákvað Tomori að semja við Milan.
Tomori ræddi við leikmenn Chelsea sem höfðu reynslu af Ítalíu og gátu ekki talað betur um deildina þar í landi.
,,Þetta var ekki bara eitthvað félag, þetta var AC Milan. Svo talaði ég við nokkra stráka hjá Chelsea sem höfðu spilað á Ítalíu – Toni Rudiger, Mateo Kovacic og Emerson. Toni hafði spilað með Roma og hann talaði alltaf um magnaðan stuðning. Hann sagði við mig að ef tækifærið kæmi þá þyrfti ég að taka það,“ sagði Tomori.
,,Hann sagði að þetta væri öðruvísi á Ítalíu, að hann hafi verið maðurinn þarna. Hann sagði mér að gefa allt í verkefnið og að þeir myndu elska mig þarna.“
,,Svo var komið að Thiago Silva, hann talaði ekki einu sinni ensku en hann áttaði sig á því hvað við værum að tala um. Hann sagði ‘Milan?’ og setti þumalputtann upp. Ég hugsaði með mér, allt í lagi, komið mér í þessa flugvél.“