Henry Birgir Gunnarsson settist í settið í Íþróttavikunni með Benna Bó sem sýnd er á Hringbraut alla föstudaga. Þar var einnig Hörður Snævar Jónsson, fréttastjóri íþróttafrétta á Torgi.
Í Áramótaskaupinu voru teknir fyrir foreldrar sem haga sér illa á fótboltamótum. Þetta var rætt í þættinum, en Henry hefur mikla reynslu af því að vera í kringum yngri flokka í knattspyrnu með börn sín.
Hann telur þetta hafa breyst frá því hann var í þeim pakka.
„Þá fannst mér þetta ótrúlega gott. Aftur á móti, miðað við það sem ég hef heyrt, hefur þetta hríðversnað á síðustu árum, að foreldrar séu bara orðnir gaga,“ segir hann.
„Það voru kannski 2-3 trúðar að haga sér eins og fífl og það var góður mórall á meðal foreldra sem voru að skamma þá sem höguðu sér illa. Það virðist vera á undanhaldi.“
Hörður hafði gaman að. „Maður öskurhló ekkert allt skaupið en þegar frasinn kiðfætta lufsa kom þá öskurhló ég.“
Hann segir foreldra þurfa að haga sér. „Það er engum greiði gerður með þessum skrílslátum.“