Henry Birgir Gunnarsson settist í settið í Íþróttavikunni með Benna Bó sem sýnd er á Hringbraut alla föstudaga. Þar var einnig Hörður Snævar Jónsson, fréttastjóri íþróttafrétta á Torgi.
Kjörið á íþróttamanni var á meðal þess sem var til umræðu. Ómar Ingi Magnússon hlaut nafnbótina á dögunum.
„Aldrei þessu vant lá þetta frekar borðliggjandi fyrir,“ sagði Henry í þættinum.
Aðeins einn aðili úr samtökum íþróttafréttamanna kaus Ómar ekki. Ekki er ljóst hver það var en meðlimir samtakanna geta óskað eftir þeim upplýsingum.
Það er vegna þess að Henry lagði til að það yrði gert leyfilegt á sínum tíma.
„Það var komin lykt af því að menn væru að nýta sér nafnleyndina í kosningunni til að hygla einhverju sem þeir töldu á kostnað annarra.
Ég lagði til að opna kjörið en talaði fyrir daufum eyrum en málið var sett í nefnd. Niðurstaðan í því var sú að kjörið er vissulega lokað fyrir almenningi en félagsmenn geta beðið um að sjá alla atkvæðaseðla. Það á að veita félagsmönnum ákveðið aðhald að hinir geti kíkt á seðlana þeirra. Við það urðu jákvæðar breytingar á þessu og ég mun skoða þessa atkvæðaseðla.“
Henry telur að Ómar hefði átt að fá fullt hús.
„Þetta var mjög sérstakt því Ómar Ingi var langbesti íþróttamaðurinn á síðasta ári. Það er pínu galið að hann hafi ekki fengið fullt hús.“