Flugdólgur lét öllum illum látum í flugi Air Canada frá Vancouver til Brisbane í morgun. Flugvélin átti að lenda í Brisbane í morgun en þurfti að lenda í Honolulu á Hawaii vegna flugdólgsins.
Myndband náðist af því þegar látunum var að ljúka en þá voru lögreglumenn komnir um borð í vélina til að fjarlægja dólginn. Áströlsk kona ræddi við Gold Coast Bulletin um málið en maki hennar var í fluginu og sendi henni skilaboð um hvað átti sér stað.
Jacqui Beadle, konan sem um ræðir, segir að flugdólgurinn hafi káfað á konum í fluginu og að í kjölfarið hafi hann verið handjárnaður og festur við sætið með benslum. „Maðurinn hljóp um, greip í konur og á að hafa lyft upp pilsum þeirra,“ er haft eftir Beadle.
„Einhverjir stórir menn tóku hann niður og flugþjónarnir handjárnuðu hann og settu bensli utan um fætur hans.“
Í myndbandinu sem náðist má heyra í flugdólginum öskra að verið sé að misþyrma sér. „Ég finn varla fyrir höndunum mínum,“ heyrist hann öskra. „Hann er klikkaður, hann er að öskra – ég vona að þau nái að taka hann út,“ heyrist svo annar farþegi segja í myndbandinu sem sjá má í frétt News.com.au um málið.