Joe & The Juice hefur ákveðið að draga sig úr útboði um rekstur veitingastaða á Keflavíkurflugvelli. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Báðum sölustöðum Joe & The Juice á vellinum, annars vegar á efri hæð eftir að farið er í gegnum öryggisleitina og hins vegar á neðri hæð við brottfararsal, verður því lokað á næstu mánuðum eftir tæplega átta ára veru í flugstöðinni.
Ástæða ákvörðunarinnar samkvæmt tilkynningunni er sú að Isavia setur skilyrði um að allir þeir veitingastaðir sem verði fyrir valinu í útboðinu þurfi að bjóða bæði upp á áfengi og tilbúna rétti. Joe & The Juice hefur ekki selt áfengi á sínum stöðum og sömuleiðis hefur staðurinn aldrei boðið upp á mat sem útbúinn var mörgum klukkustundum áður. Þvert á móti er það eitt helsta einkenni staðarins að bjóða upp á eins ferskar samlokur og djúsa og mögulegt er, sem útbúnir eru eftir pöntun. Joe & The Juice hugnast einfaldlega ekki að gera þær breytingar á vöruvali sínu sem Isavia setur kröfu um á Keflavíkurflugvelli, þótt það þýði að félagið eigi ekki möguleika á að halda áfram rekstri í flugstöðinni.
Haft er eftir Birgi Bieltvedt, eiganda Joe & The Juice, að fyrirtækið hafi verið með samning um rekstur í flugstöðinni til áramóta og vitað af yfirvofandi útboði. „Það kom okkur hins vegar á óvart síðasta sumar, þegar útboðsgögnin lágu fyrir, hvers konar breytingar ætti að gera á veitingasölu í flugstöðinni. Við ákváðum engu að síður að taka þátt í útboðinu. Í ferlinu varð sífellt ljósara hversu mikil áhersla var lögð á ýmsa þætti sem hefðu þýtt stórfelldar breytingar á „konsepti“ Joe & The Juice, til að mynda krafa um sölu áfengis og ýmissa tilbúinna rétta,“ segir Birgir.
Hann segir að í útboðinu hafi verið að bjóða út rekstur þriggja á þrem staðsetningum á vellinum og að stjórnendur Joe & The Juice hafi lýst því yfir að fyrirtækið værui tilbúið til að vera með þriðja staðinn undir nýju vörumerki þar sem selt yrði áfengi, gos og tilbúnir réttir. Að lokum gátu stjórnendurnir þó ekki sætt sig við að breyta hinum tveimur stöðunum og hverfa með því frá grunngildum Joe & The Juice um ferskleika.
„Okkar upplifun er að það sé enginn skortur á stöðum sem bjóða tilbúna rétti og áfengi í flugstöðinni og erfitt að sjá af hverju það megi ekki vera sem mest fjölbreytni í veitingaframboði vallarins. Kannanir sem gerðar hafa verið á meðal ferðalanga sýna að þeir vilja helst sjá vörur gerðar á staðnum, ferska djúsum og hristinga ásamt kaffi og samlokum á flugvellinum. Joe & The Juice uppfyllir að okkar mati vel þessar væntingar flugfarþega og okkur finnst þetta fyrst og fremst mjög leitt, enda hafa staðirnir verið með þeim vinsælustu á flugvellinum undanfarin ár.“
Joe & The Juice rekur áfram níu staði á höfuðborgarsvæðinu og á Selfossi, en sá nýjasti var opnaður í desember og er við Birkimel í Vesturbænum. Stefnt er að opnun fleiri staða á næstunni.