Landsliðsmaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson mætti í viðtal í hlaðvarpsþættinum Dr. Football á dögunum.
Þar var meðal annars farið yfir feril kappans með íslenska landsliðinu. Þessi 31 árs gamli leikmaður festi sig fremur seint í sessi þar og fór ekki með liðinu á lokamót Evrópumótsins 2016 eða Heimsmeistaramótsins 2018.
Það var skömmu fyrir HM í Rússlandi 2018 þegar Guðlaugur Victor sá landsliðsþjálfarann á þeim tíma, Heimi Hallgrímsson, að fylgjast með æfingu hjá sér. Á þessum tíma var hann leikmaður Zurich í Sviss.
„Við vorum á æfingu og ég sé Heimi á æfingu hjá okkur, rétt áður en hann á að velja HM hópinn. Maður fær svona fiðrildi í magann og sér að hann er þarna,“ sagði Guðlaugur Victor.
Svo kom hins vegar í ljós að Heimir var aðeins á fundi í höfuðstöðvum FIFA, sem eru í Zurich.
„Svo fer ég að tala við hann en þá var hann bara á fundi hjá FIFA. Hann ætlaði bara að tékka aðeins á æfingu, ekkert til að tala við mig.
Þá varð ég alveg vel svekktur.“
Guðlaugur Victor skilur það að hann hafi ekki verið valinn á þessum tíma.
„Hann var bara með sinn hóp og það gekk allt upp. Af hverju átti hann að vera að breyta?“