Peter Viggo Jakobsen, hernaðarsérfræðingur við danska varnarmálaskólann, sagði í samtali við TV2 að hugsanlega hafi það einmitt verið ætlun Pútíns að kalla þessi viðbrögð fram hjá Úkraínumönnum. „Þetta er tilraun til að segja að það séu Úkraínumenn sem séu illmennin. Ef Úkraínumenn hafna vopnahléi um hátíðina þá er upplagt fyrir Rússa að segja: „Sjáið, Úkraínumenn eru nasistar og vilja stríð.“ Það er það sem áróður þeirra gengur út á,“ sagði hann.
Hann benti á að heimsbyggðin vilji gjarnan að stríðinu ljúki og mikill alþjóðlegur þrýstingur sé á að endi verði bundinn á það því áhrifa þess gæti um allan heim með verðhækkunum og orkuskorti. „Allir geta vel hugsað sér að stríðsátökum ljúki. Þess vegna er best ef maður getur látið það líta út eins og það séu aðrir sem vilja ekki frið,“ sagði hann.
Ef til vopnahlés kemur veitir það báðum stríðsaðilum upplagt tækifæri til að koma birgðum og mannskap til fremstu víglínu. Jakobsen sagði að eins og staðan sé núna þá hafi Rússar meiri þörf fyrir bardagahlé en Úkraínumenn til að geta styrkt stöðu sína áður en stríðið heldur áfram.