fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

Wallis og Meghan – Báðar bandarískar, báðar fráskildar og báðum kennt um að eyðileggja bresku krúnuna

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Fimmtudaginn 5. janúar 2023 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hefði langafabróðir Harry prins ekki orðið yfir sig ástfangin af fráskildri, bandarískri konu, Wallis Simpson, myndi varla sála vita hver hann væri. Hvað þá þekkja til Meghan Markle.

Ótrúlegur samanburður

Að mörgu leyti eru makalaus líkindi með þessum tveimur konum, svo og mönnunum sem voru reiðubúnir að fórna öllu fyrir þær.

Báðar bandarískar, báðar á fertugsaldri þegar þær kynntust mönnum sínum, báðar fráskildar, báðar litnar hornauga í Bretlandi, og jafnvel hataðar.

Og í báðum tilfellum urðu hjónaböndin til þess að eiginmenn þeirra yfirgáfu krúnuna og fluttu frá Bretlandi.

Aftur á móti er sjaldnar litið til þess sem aðskilur þær og prinsanna sem þær giftust.

Líkir frændur

Líkt og Harry löngu síðar var Edward þekktur sem „partýprinsinn.“ Edward hafði gaman af að skemmta sér ærlega og báðir þóttu frændurnir fremur lélegir námsmenn sem stóð sig aftur á móti vel við herþjónustu.

Það er reyndar opinbert leyndarmál að hæst settu meðlimir bresku konungsfjölskyldunnar eru almennt ekki skikkaðir til lífshættulegra verkefna í hernum.

Ólíkt Harry sýndi Edward lítinn áhuga á konunglegum skyldum en á móti kemur að fjarlægð meðlima konungsfjölskyldunnar frá almenningi á millistríðsárunum var ljósárum frá því er í dag.

Ekki var um það að ræða að heilsa upp á almenning, heimsækja sjúkrahús eða opna blómasýningar, svo fátt eitt sé nefnt.

Stóri munurinn á milli þeirra Harry og Edward var aftur á móti sá að Edward var frumburðurinn sem var ætlað frá fæðingu að taka við krúnunni. Harry var aftur á móti aldrei krónprins, það hlutverk fæddist William eldri bróðir hans inn í.

En Edward hafði engan áhuga á að undirbúa sig fyrir konungdóminn og lét margoft hafa eftir sér að hann nennti ekki að standa í þeim leiðindum að vera kóngur.

Báðir þóttu þeir frændur sjarmerandi, voru kvensamir og héldu lífleg partý með sinni klíku sem yfirleitt samanstóð af jafnöldrum þeirra af aðalstétt og/eða þeim allra ríkustu.

Engir táningar

Edward kynntist Wallis í gegnum „gengi“ prinsins þegar hún var 31 árs og þremur árum síðar hófu þau ástarsamband.

Wallis var 41 árs ára þegar hún giftist Edward, Meghan var 36 ára þegar hún giftist Harry. Báðir voru og eru yngri en eiginkonur sínar.

Líkt og Meghan var Wallir bandarísk og fráskilin. En Wallis var aftur á móti gift eiginmanni númer tvö þegar hún hóf ástarsamband sitt við Edward. Meghan var aftur á móti ekki gift.

Báðir urður frændurnir Edward og Harry, svo að segja frá upphafi, yfirgengilega ástfangnir að verðandi eiginkonum sínum.

En svo fara líkindin að minnka.

Opið hjónaband

Harry og Meghan giftust eftir aðeins tveggja ára kynni. Edward og Wallis höfðu aftur á móti þekkst í tíu á þegar þau kynntust og þar af átt í ástarsambandi í tæp sjö ár.

Fyrsta hjónaband Wallis mun hafa verið hörmung á hörmung ofan, litað af botnlausu framhjáhaldi beggja hjónakornanna en sama var ekki unnt að segja um hjónaband númer tvö.

Wallis og Ernest Simpson, sem einnig var bandarískur, þóttu ákaflega hamingjusöm þótt að hjónabandið hafi ekki verið með hefðbundnu sniði, og hvað þá á fyrstu áratugum síðustu aldar.

Þau voru bestu vinir og í því sem í dag er kallað „opið hjónaband.“

Ernest fannst ástríða krónprinsins fyrir eiginkonu sinni bráðfyndin og í bréfaskriftum þeirra kemur fram að hvorugt þeirra bar mikla virðingu fyrir krónprinsinum og fannst hann reyndar fremur kjánalegur í sjálhverfu sinni og snobbi.

Bæði kunnu þau aftur á móti vel að meta fríðindin sem fylgdu ástarsambandi Wallis og Edward. Krónprinsinn kynnti þau fyrir rjóma bresks samfélags og liðkaði fyrir viðskiptasamningnum sem gerðu Ernest að afar vel efnuðum manni.

Wallis kunni einnig að meta skartgripina, pelsana, bifreiðarnar og þjónustufólkið sem Edward bókstaflega mokaði í hana.

Það er augljóst á skrifum Simpson hjónanna að þau hugðust nýta sér sambandi Wallis og Edward til fullnustu áður en hann fengi leið á henni og fyndi sér nýja, og yngri, hjákonu eins og hann var vanur.

Stjórnskipunarkrísa

Ólíkt Meghan kom Wallis aldrei til hugar að sambandið endaði með giftingu.

En Edward fékk ekki leið á Wallis, þvert á móti virtist ástríða hans fyrir henni aukast eftir því sem tíminn leið, bresku konungsfjölskyldunni og ríkisstjórninni til mikillar skelfingar.

Wallis var eins ómögulegt drottningarefni og unnt var að finna. Hún var bandarísk, ekki meðlimur í ensku biskupakirkjunni, fráskilin, svo að segja komin úr barneign og í þokkabót gift.

Og þegar að kom að því sem allir kviðu fyrir, að Georg V, konungur dó í janúar 1936 og Edward tók við, skall á hreinræktuð stjórnskipunarkrísa.

Það var útilokað að hinn nýi konungur tæki sér Wallis sem eiginkonu, jafnvel þótt að hún og Ernest hefðu skilið sama ár enda lítið annað i stöðunni – allir vissu um samband Wallis og Edward. Hún átti þó síðar eftir að viðurkenna að Ernest hefði verið hennar stóra ást í lífinu.

Svo fór að Edward sagði af sér konungdómi í október 1936 í áhrifamiklu útvarpsávarpi þar sem hann sagðist aldrei fórna konunni sem hann elskaði, jafnvel ekki fyrir konungdóminn.

Svo fór að yngri bróðir hans, Georg VI, tók við krúnunni, þess alls óundirbúinn, og tók dóttir hans Elísabet II við hásætinu eftir lát hans. Karl III sonur hennar er nú konungur Bretlands eftir fráfall Elísabetar í september síðastliðin, eftir 70 ára valdasetu.

Hataðasta kona Bretlands

Þegar að Edward sagði af sér konungdómi varð Wallis hatasta kona Bretlands og þótt það sé kannski fulldjúpt í árina tekið að segja Meghan hataða þá er hún vægast sagt ekki vinsæl í Bretlandi.

Þau hjón, Wallis og Edward, fengu hertogatitilinn Windsor, sem Elísabet skipaði að yrði aldrei notaður aftur.

Edward var lengi vel landstjóri á Bahamas en annas bjuggu þau lengst af í Frakklandi og lifðu hátt. Voru veislur þeirra með þeim alglæsilegustu í Evrópu en Wallis átti aldrei eftir að stíga aftur fæti á breska jörð fyrr en við jarðarför eiginmanns síns. Þau eignuðust aldrei börn.

Wallis þótti ekki mjög fríð kona en hún mun hafa verið afar vel gefin, vel lesin og orðheppin. Hún þótti einnig hafa sérstaklega glæsilegan fatastíl og var oft talin ein best klædda kona heims.

Lengi vel var saga Wallis og Edward lituð rómantík og kölluð ein stórfenglegasta ástarsaga allra tíma. Að kjósa ástina fram yfir hásæti Bretlands?

Eins og hundur

En í seinni tíð hefur álit margra breyst, ekki síst eftir að bréf Wallis voru gerð opinber eftir lát hennar árið 1986. Í þeim kemur fram að Wallis líkaði ekkert sérstaklega vel við eiginmann sinn, fannst hann fremur vitlaus og fyrirleit hann fyrir að elta hana eins og hundur út um allt.

Edward mun varla getað tekið ákvörðun hvaða sokka hann ætti að fara í án þess að spyrja hana ráða.

Og miðað við hversu oft Edward hafði haft orð á því hversu lítið hann vildi kóngur má færa að því líkum að Wallis hafi verið prýðileg afsökun.  Því er oft haldið fram að Wallis hafi í raun gert bresku krúnunni mikinn greiða þar sem Edward hefði að öllum líkindum orðið mun lélégri kóngsi en yngri bróðir hans síðar var.

Edward kvartaði margoft yfir að konu sinni væri ekki sýnd sú virðing sem hún ætti skilið en Wallis kom aldrei með opinberar yfirlýsingar.

Líkt og Harry og Meghan gerðu þau ýmislegt til að drýgja tekjurnar, jafnvel þótt að konungsfjölskyldan greiddi þeim háar fjárhæðir árlega, aðallega fyrir að láta sig hverfa.

Netflix og Spotify var ekki í boði en þau seldu aðgengi að veislum sínum, Wallis skrifaði pistla um tísku og vildi blaðamaður viðtal var það útilokað nema gegn veglegri greiðslu.

Satt eða logið?

Harry hefur einnig kvartað yfir virðingarleysi við eiginkonu sína en ólíkt Wallis hefur Meghan aftur á móti látið heyra vel sér.

Og ekki má gleyma þeim röddum sem segja að það sem skilji konurnar hvað mest að, sé að Wallis mun aldrei hafa vilja giftast sínum prinsi, hann hafi gengið á eftir henni þar til það var orðið of seint fyrir hana að snúa við.

Meghan hafi aftur á móti verið ákveðin í að giftast Harry, jafnvel áður en hún hitti hann, og skipulagt vegferðina upp að altarinu með hernaðarlegri nákvæmni.

En hvort eitthvað er til í því eða um ljóta kjaftasögur er að ræða veit í raun enginn.

Nema Meghan.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram