Harrý Bretaprins heldur því fram að hann og bróðir hans, Vilhjálmur, hafi grátbeðið föður sinn, Karl konung, um að giftast ekki Kamillu á sínum tíma. Ljóst er að beiðni bræðranna hefur ekki gengið þar sem Karl og Kamilla giftu sig í apríl árið 2005.
Samkvæmt The Sun kemur þetta fram í óútgefinni bók Harrýs. Í henni kemur fram að bræðurnir hafi hugsað um Kamillu sem „hina konuna“. Harrý segir að þeir hafi báðir hitt hana í sitthvoru lagi áður en hún varð opinberlega hluti af fjölskyldunni, í bókinni kemur fram hans hlið af þeim fundi.
Harrý segist hafa hugsað um það að hitta Kamillu eins og að fá sprautu í sig. „Þetta er ekkert. Lokaðu augunum og þú munt ekki finna fyrir þessu,“ skrifar hann í bókinni. Hann segir að honum hafi fundist eins og Kamillu leiddist, þetta hafi verið ekkert nema formlegheit þar sem hann var ekki næsti erfingi krúnunnar. Þau töluðu víst lítillega saman um hesta á fundinum samkvæmt bókinni.
Sjá einnig: Harry varpar sprengjum í nýrri bók: Vilhjálmur „sló mig í gólfið“
Harrý segist hafa haft áhyggjur af því að Kamilla gæti einn daginn orðið að „vondu stjúpmömmunni“ eins og í ævintýrunum. Hann segir þó að hann og Vilhjálmur hafi báðir verið til í að fyrirgefa henni ef hún gæti gert Karl hamingjusamann.
„Við sáum að líkt og við, þá var hann það ekki,“ segir Harrý. „Við þekktum augnaráðin, andvörpin og pirringurinn sést alltaf á andlitinu hans.“
Þá segir Harrý að þeir bræðurnir hafi lofað föður sínum að taka á móti Kamillu í fjölskuldunni með því skilyrði að hann myndi ekki giftast henni. Harrý segir að þeir hafi grátbeðið Karl um að giftast ekki aftur eftir að móðir þeirra, Díana prinsessa, lést. Samkvæmt Harrý þá svaraði Karl ekki þessari bón sona sina.