Ákvörðunin var upphafið að endalokum Rússlands eins og við höfum þekkt það allt frá hruni Sovétríkjanna. Um leið markar þetta hrun nokkuð stöðugrar heimsskipunar sem hefur ráðið ríkjum í Evrópu frá því að síðari heimsstyrjöldinni lauk. Afleiðingar innrásarinnar í Úkraínu munu ekki aðeins hafa áhrif á næstu árum, þær munu móta heila kynslóð innan og utan Rússlands.
Þetta er ekki boðskapur frá þungorðum vestrænum leiðarahöfundi eða fólki sem er áberandi í rússnesku ríkissjónvarpi, fólki sem hefur sífellt í hótunum um beitingu kjarnorkuvopna og árásir á Vestur-Evrópu.
Þetta kemur fram í grein eftir Dmitri Trenin á hálfopinberri rússneskri heimasíðu þar sem fjallað er um alþjóðastjórnmál. Vefsíðan höfðar aðallega til sérfræðinga í þessum málaflokki að sögn Jótlandspóstsins.
Trenin er ekki bara einhver maður úti í bæ, hann er einn reyndasti maðurinn á sviði stjórnmála- og öryggismálagreininga og hann hefur góða innsýn í það sem gerist hverju sinni í Kreml. Þess utan hefur hann ákveðin áhrif á þá stefnu sem ráðamenn í Kreml fylgja hverju sinni. Hann var forstjóri Moskvuútibús bandarísku hugveitunnar Carnegie í um 15 ár en lét af því þegar Rússar réðust inn í Úkraínu. Hann er nú aftur kominn í sitt gamla hlutverk sem andstæðingur Vesturlanda.
Í lauslegri þýðingu heitir grein hans „Hin sérstaka hernaðaraðgerð í Úkraínu sem vendipunktur fyrir utanríkisstefnu Rússlands nútímans“.
Rússnesk stjórnvöld vilja enn kalla stríðið „sérstaka hernaðaraðgerð“ þrátt fyrir að tugir þúsunda hafi látist í átökunum og milljónir Úkraínumanna hafi neyðst til að flýja heimili sín og land.
Í greininni slær Trenin því föstu að stríðið í Úkraínu munu gjörbreyta Rússlandi. Landamæri þess, samsetning þjóðarinnar, efnahagskerfi, grundvallaratriði og margt annað mun breytast að hans sögn.
En hann hefur ekki svo mikinn áhuga á innanríkismálum, utanríkismálin eru honum hugleiknari. Sjónir hans beinast aðallega að öryggismálum og hernaðarmálum. Hann telur að stríðið hafi í för með sér grundvallarbreytingu á stöðu og hlutverki Rússlands á alþjóðavettvangi sem og þeim ytri skilyrðum sem Rússar búa við. Þetta leiði af sér að markmið og verkefni breytist sem og hinn taktíski leikur.
Hann segir að bilið á milli austurs og vestur sé nú meira en nokkru sinni áður og í fyrsta sinn í sögu Rússlands eigi landið engan vestrænan bandamanna og ekki einu sinni land sem vill ræða við Rússland, land sem getur gegnt hlutverki milliliðs. Hann spáir langvarandi átökum og deilum sem muni teygja sig um víðan völl landfræðilega séð.
Hann segir að ósigur í stríðinu komi einfaldlega ekki til greina, það væri jafngildi hörmunga. Ólíklegt sé að samningar náist sem báðir aðilar séu sáttir við. Eina leiðin sé að sækja fram.