fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fréttir

Faðir stígur fram – Sætir nálgunarbanni gegn meintum geranda dóttur sinnar – „Hann braut mörg hundruð sinnum gegn henni“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 4. janúar 2023 19:30

Frá Barnahúsi. Mynd; Valli, Mynd tengist frétt ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tveir úrskurðir Landsréttar í gær sem varða nálgunarbann feðga hafa vakið mikla athygli og var greint frá þeim í öllum helstu netmiðlum. Landsréttur felldi þar úr gildi nálgunarbann fyrir hönd þolanda líkamsárásar gagnvart 18 ára árásarmanni en staðfesti nálgunarbann gegn föður mannsins, en sá er sakaður um hótanir og áreiti í garð þolanda árásarinnar.

Þolandi árásarinnar og áreitins er hins vegar meintur gerandi í mjög alvarlegu kynferðisbrotamáli gegn systur árásarmannsins, dóttur föðurins. Faðir stúlkunnar ræddi við DV í dag og segist hann fúslega gangast við því að hafa hótað manninum. „Það er ekkert leyndarmál að ég sagðist ætla að eyðileggja líf hans og fjölskyldu hans. Hann braut mörg hundruð sinnum gegn dóttur minni og lagði líf hennar og bróður hennar í rúst,“ segir maðurinn, ómyrkur í máli, en yfirvegaður og stilltur í framkomu.

DV hefur rætt við fleiri aðila vegna málsins og heimildir miðilsins benda til þess að þolandi árásarinnar hafi brotið mjög gróflega gegn dóttur mannsins um fjögurra ára skeið, frá því hún var 9 ára og fram til 13 ára aldurs. Málið er nú til meðferðar hjá héraðssaksóknara eftir rannsókn lögreglu sem faðirinn segir hafa verið misheppnaða og fulla af klúðri.  Viðmælandur DV hafa bent á að rannsóknin hafi nú tekið tvö ár og þó hafi lítið verið aðhafst. Hins vegar sé strax gripið til aðgerða eftir að sonurinn réðst á meintan geranda þann 11. október og lögreglustjóri hafi þegar í stað krafist nálgunarbanns á feðgana. Mismunandi nálgun lögreglunnar á þessi tvö mál stingi í augu.

Lögregla afhenti meintum níðingi síma þolandans

„Lögreglan afhenti meðal annars níðingnum síma dóttur minnar og þar hafði hann aðgang að öllum gögnum hennar,“ segir hann en afhending símans voru mistök sem lögreglan baðst afsökunar á. En mistökin teljast vera grafalvarleg því hinn meinti níðingur var með öll aðgangsorð stúlkunnar að símanum og fékk þar með aðgang að mjög viðkvæmum upplýsingum hennar, meðal annars að spjalli hennar við vinkonur um brot hans gegn henni. „Hann fékk aðgang að öllum samskiptum hennar við alla hennar trúnaðarvini, þetta er gífurlega alvarlegt,“ segir aðili sem DV hefur rætt við um málið.

„Þessi krakkar eru með allt líf sitt í símanum. Síðan ætlaði lögreglan ekki að bæta henni símann almennilega og dró mjög lappirnar í því,“ segir faðirinn. Hinn meinti gerandi stúlkunnar segist hafa fargað símanum en hún leggur ekki trúnað á það og var miður sín yfir þessum mistökum lögreglunnar.

„Staðreyndin er sú að kynferðisbrotadeild lögreglunnar er handónýtt apparat og ég hef sagt þeim það. Það eru komin tvö ár síðan þetta mál var kært til lögreglu og það hefur lítið verið gert. Málið er að þessir níðingar fá vægari dómna af því rannsóknirnar taka alltaf svo langan tíma, en þeir eru hins vegar að gefa þolendum sínum lífstíðardóma því þolendurnir ná sér ekki og þurfa að ganga til sálfræðinga um ókomin ár,“ segir maðurinn.

Framburður stúlkunnar metinn mjög trúverðugur

Mikilvægt gagn í rannsókn málsins mun vera skýrsla sálfræðings Barnahúss. Skýrsla var tekin af stúlkunni í Barnahúsi í febrúar 2021 vegna rannsóknar málsins, en stúlkan hefur líka farið í tugi viðtala hjá sálfræðingum Barnahús. Þar mun hún hafa lýst skelfilegu og viðurstyggilegu kynferðisofbeldi hins meinta geranda síns gegn sér. Einnig greinir hún frá mikilli fíkniefnaneyslu og óreglu á heimilinu, en maðurinn var í sambúð með móður stúlkunnar.  Ekki er hægt að greina ítarlega frá þessum upplýsingum vegna rannsóknarhagsmuna en faðirinn hefur skýrsluna frá Barnahúsi undir höndum og hefur sýnt DV hana. Hann hefur jafnframt ákveðið að koma ekki fram undir nafni í bili enda snerti málið börnin hans, sem hafi fari mjög illa út úr ofbeldi stjúpföðurins, en hann segir son sinn hafa verið beittan líkamlegu ofbeldi á heimilinu. Faðirinn telur hins vegar mikilvægt að greina frá kynferðisbrotamálinu í fjölmiðlum að því marki sem hægt er því úrskurðir Landsréttar um nálgunarbönn þeirra feðga sem birtir voru í gær gefi mjög villandi mynd og takmarkaða mynd af málinu.

„Þetta lítur út eins og við feðgarnir séu truflaðir menn og hann eigi voðalegt bágt eftir þessa líkamsárás. En fólk þekkir ekki hryllinginn sem er að baki þessu, þennan fjölskylduharmleik þar sem líf tveggja barna hafa verið lögð í rúst,“ segir faðirinn.

Sálfræðingar Barnahúss hafa metið framburð stúlkunnar mjög trúverðugan. Hún hafi verið samkvæm sjálfri sér og yfirveguð. „Það verður hans málsvörn að ég hafi verið að koma þessu inn í hausinn á henni en skýrsla Barnahúss talar sínu máli. Þar kemur fram að frásögn hennar sé með þeim hætti að hún hafi ekki getað verið að skálda þetta.“

Segir einnig í skýrslunni að stúlkan hafi komist í kynni við kynferðislegar athafnir löngu áður en hún hafði þroska til og geti það haft langvarandi áhrif á tengslamyndun hennar í framtíðinni. Ljóst er að sálfræðingar Barnahúss meta framburð stúlkunnar mjög trúverðugan enda er aldrei að finna ósamræmi í frásögn hennar í gegnum tugi viðtala við sálfræðinga.

Segir föður gerandans hafa ógnað dótturinni

Líkamsárásinna framdi sonurinn gegn meinta gerandanum þann 11. október síðastliðinn, sem fyrr segir, er hann rakst á hann á förnum vegi og var þá að sögn föðurins mjög brugðið. Faðirinn var hins vegar hvergi þar nærri. „Hann má þakka fyrir að ég hafi ekki verið á staðnum,“ segir faðirinn en hann telur árásina hafa verið fremur væga. Í úrskurðum um nálgunarbann kemur fram að ungi maðurinn hafi kýlt þolandann og sparkað í höfuð hans.

Auk áreitis og hótana í garð hins meinta geranda er faðirinn einnig sakaður um áreiti í garð föður meinta gerandans. Hann gengst við því og segir það áreiti eiga sér eðlilegar orsakir. „Þau buggu í einbýlishúsi í Grafarvogi sem pabbi hans átti og því hafði verið skipt niður í tvær íbúðir. Pabbinn hafði fullan aðgang að öllu húsinu. Öllu dóti sem börnin mín áttu á þessu heimili þegar þau bjuggu þar, því var hent. Pabbinn hafði síðan verið að sjá dóttur mína í hverfinu nokkrum sinnum þegar hún var að fara á bensínstöðina og kaupa sér nammi og þess háttar og það sem hann gerir er að hann bíður í bílnum sínum fyrir utan bensínstöðina og starir á dóttur mína, bara til að hræða.“ Tekið skal fram að þetta meinta áreiti átti sér stað nokkuð löngu eftir að börnin voru flutt af heimilinu.

Faðirinn viðurkennir að hafa sent þessum manni skilaboð en hann hafi ekki verið að hóta honum sjálfum heldur hafi hann verið með yfirlýsingar um son hans við hann. „Ég hef bara verið að minna hann á hvers konar maður sonur hans er, að sonur hans er barnaníðingur.“

Faðirinn segir að hann muni gera allt sem hann getur til að hinn meinti níðingur verði dreginn til ábyrgðar. „Þessi maður rústaði lífi dóttur minnar. Hann skal fá makleg málagjöld. Hann braut mörg hundruð sinnum gegn henni á viðbjóðslegan hátt. Það sem hann gerði er ófyrirgefanlegt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!