Það kom mörgum á óvart þegar spjallþáttastjórnandinn James Corden tilkynnti að hann ætlaði að segja skilið við The Late Late Show. Hann settist á dögunum niður með Drew Berrymore í spjallþætti hennar og útskýrði þar ákvörðun sína.
„Sjáðu til, það er ekki auðvelt að ganga burt frá einhverju sem er svona…. ég meina, ég mun aldrei vinna í betra umhverfi en því sem ég vinn í núna. Ekkert við það að yfirgefa þáttinn tengdist því að ég væri ekki að njóta mín. Ég elskaði þetta. En í sannleikanum sagt var þetta mjög auðveld ákvörðun því ég vissi alltaf að þetta væri ævintýri og leit aldrei á þetta sem endastöð.“
Hann hafi áttað sig á því að hann þyrfti að taka þessa ákvörðun þegar hann var að taka upp þættina Mammal á síðasta ári.
„Dag einn var ég í tökum á sunnudegi og ég kom niður, það var um 6 um morguninn og sonur minn, sem var 10 ára á þeim tíma, sat í stiganum og spurði – Ertu að vinna í dag? Og ég svaraði: Já. Þá sagði hann – Ég hélt bara, ég meina það er sunnudagur. Og ég sagði – Ég veit elskan mín en þessar vaktir eru bara allskonar. Við verðum bara að klára þetta því við höfum bara smá tíma áður en við þurfum að fara til baka og gera þáttinn [Late Late Show] og honum féll bara allur ketill í eld.“
Corden hafi þá farið upp í bílinn sinn og hringt í konuna sína og sagt henni að það væru bara fáein sumur þar sem sonur þeirra myndi nenna að verja með þeim tíma og Corden gæti ekki sóað meiri tíma.
Corden útskýrði að þarna hafi hann áttað sig á því að þó hann væri allur að vilja gerður til að leggja mikið á sig í vinnunni þá mætti það ekki gerast á kostnað barna hans og fjölskyldu.