Nýjasta dæmið um þetta er að Roman Abramovich, fyrrum eigandi enska knattspyrnuliðsins Chelsea, flutti í desember inn í lúxusvillu í Istanbúl, við Bosporussund, en þar eru dýrustu og eftirsóttustu hús landsins. Hann leigir húsið af tyrkneskum kaupsýslumanni og greiðir 50.000 dollara í leigu á mánuði.
Erdogan, Tyrklandsforseti, sagði strax í mars að Tyrkir myndu ekki beita Rússa refsiaðgerðum því það myndi koma niður á tyrkneskum iðnaði og orkuþörf landsins. Mánuði síðar sagði hann að ákveðnir hópar fjármagnseigenda gætu komið með fjármagn sitt til Tyrklands. Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra, sagði síðar í samtali við CNBC að þetta þýði að Tyrkir bjóði rússneska olígarka velkomna til landsins, bæði sem ferðamenn og fjárfesta, svo lengi sem þeir brjóti ekki gegn alþjóðalögum.
Í kjölfarið birtist hver snekkjan á fætur annarri, í eigu rússneskra olígarka, í Tyrklandi því þar eiga olígarkarnir ekki á hættu að hald verði lagt á þær. Í ágúst voru til dæmis fjórar ofursnekkjur, sem eru í eigu Abramovich eða eru taldar tengjast honum, í höfn í Tyrklandi. Samkvæmt því sem New York Times segir þá hafa 32 snekkjur, sem tengjast olígörkum eða rússneskum fyrirtækjum, sést við Tyrkland að undanförnu.
Einnig hafa fasteignasalar orðið varir við mikinn áhuga rússneskra milljarðamæringa, aðallega í Istanbúl og Antalya. En einnig hafa margir úr rússnesku millistéttinni látið að sér kveða á fasteignamarkaðnum. Það dregur ekki úr áhuganum að með því að kaupa fasteign fyrir 450.000 dollara að lágmarki getur kaupandinn fengið tyrkneskt vegabréf. Flestir Rússanna greiða í reiðufé að sögn fasteignasala.
Samkvæmt því sem Financial Times segir þá streymdu 28 milljarðar dollara, sem tyrkneski seðlabankinn getur ekki gert grein fyrir, inn í landið á fyrstu átta mánuðum síðasta árs. Þetta hefur aukið á áhyggjur vestrænna ríkisstjórna um að Tyrkland sé orðið leið Rússa til að sniðganga refsiaðgerðirnar.