Guðlaugur Victor Pálsson lýsir því í viðtali við Hjörvar Hafliðason í Dr. Football þegar hann hitti Jurgen Klopp á æfingasvæði Liverpool árið 2020.
Íslenski landsliðsmaðurinn var í akademíu Liverpool á yngri árum og sneri aftur að heimsækja félagið fyrir þremur árum síðan.
„Ég er í fínu sambandi við fólk sem er að vinna þarna. Þetta er rosalega heimakær klúbbur,“ segir Guðlaugur Victor.
Hann hitti knattspyrnustjórann Klopp og talar vel um kauða. „Jurgen Klopp er geggjaður. Mér leið eins og ég væri búinn að þekkja manninn í tíu ár þegar ég hitti hann.“
Guðlaugur Victor er í dag á mála hjá DC United í Bandaríkjunum. Hann lék fyrir það með Darmstadt og Schalke í Þýskalandi. Miðjumaðurinn greip í þýskuna er hann ræddi við Klopp.
„Nærvera hans er ótrúleg. Eftir að hafa hitt hann skil ég að það líki öllum við hann.“