Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd, vekur athygli á því í pistli sem birtist á Vísi í dag að myndir séu gjarnan birtar af börnum án þeirra samþykkis. Börn séu jafnvel komin með stafrænt fótspor áður en þau koma í heiminn.
„Börn eru ótrúlega frábær! Á því leikur engin vafi,“ segir Skúli í upphafi pistilsins. „Þau geta verið svo sæt, klár og sniðug að við erum bókstaflega við það að springa úr stolti.“
Hann segir að á slíkum stundum vilji foreldrar fanga augnablikið og deila því með öðrum.
„Þá náum við í símann og tökum eins og eina mynd eða fimmtán. Stundum eru börn alveg óborganleg með sína svipi, skapsveiflur og prakkarastrik. Stundum eru þau svo bráðfyndin að við veltumst um úr hlátri. Stundum eru þau alveg æðislega gott efni fyrir samfélagsmiðilinn okkar.“
Skúli segir að um það bil 80% barna og ungmenna á aldrinum 9-18 ára segi að foreldrar sínir deili oft eða stundum myndum af sér á Instagram, Facebook eða Snapchat. Foreldrar stúlkna séu aðeins líklegri til þess að deila myndum af þeim heldur en foreldrar stráka. Þó sögðu bara rétt tæplega 40% að foreldrar sínir höfðu spurt um leyfi áður en myndinni af þeim var deilt.
„Auðvitað viljum við eiga myndir af börnunum okkar, rétt eins og foreldrar okkar vildu eiga myndir af okkur þegar að við vorum börn. Munurinn er hinsvegar sá að þær myndir enduðu í römmum, jólakortum eða myndaalbúmum en ekki á netinu. Með öðrum orðum á stöðum sem safna ryki en ekki hjá stórfyrirtækjum sem byggja afkomu sína á því að safna upplýsingum.“
Skúli segir að um 17% barna og ungmenna á aldrinum 9-18 ára séu ósátt við mynddeilingar foreldra sinna af þeim eða þeim þykir þær vandræðalegar.
„Hlutfallið er hæst meðal stúlkna á efsta stigi grunnskóla (8.-10. bekk). Við þekkjum sjálf þessa vandræðalegu tilfinningu þegar að foreldrar okkar rifu óumbeðin fram myndaalbúmið til þess að sýna frænkum, frændum, tilvonandi mökum eða öðrum gestum myndir af okkur í baði þegar að við vorum lítil börn.
„Æji sjáðu bara hvað hann er með krúttlegt og krumpað lítið typpi…“
Nú þarf ekki lengur að kíkja í heimsókn til að sjá vandræðalegar barnamyndir því nógu fljótlegt og einfalt er að fletta þeim í staðinn upp á samfélagsmiðlum. Hefðum við verið sátt við það á viðkvæmum mótunarárum ef myndaalbúm heimilisins væru til sýnis fyrir hvern þann sem hefði áhuga á að skoða þau? Ég held ekki.“
Í pistlinum bendir Skúli á að hægt sé að finna myndir af börnum fólks á netinu þrátt fyrir að augljóst sé að börnin hafi ekki gefið samþykki fyrir birtingunni. „Á netinu get ég séð myndir af börnum fólks sem ég þekki ekki neitt. Jafnvel í baði, nakin og berskjölduð,“ segir hann.
„Ég get líka séð myndir af börnum sem eru ekki einu sinni fædd! Því strax í móðurkviði byrjum við að taka sónarmyndir af börnunum okkar og deila með heiminum. Það þarf enga rannsókn til þess að vita hversu mörg börn gáfu leyfi fyrir þeirri deilingu. Já fyrsta skrefið hjá ófæddu barninu okkar var stafrænt fótspor.“
Skúli útskýrir þá að stafrænt fótspor er allar þær upplýsingar sem verða til um okkur þegar að við notum netið ásamt því sem aðrir setja inn um okkur. Upplýsingar sem meðvitað eru settar inn eins og myndir, myndbönd, athugasemdir og fleira. Þá séu þetta einnig upplýsingar um hegðun á netinu, eins og hvað fær fólk til að staldra við á vefsíðum, að hverju er leitað að, hversu oft vefsíður eru heimsóttar og fleira.
„Öll þessi like og deilingar, allt sem við kaupum og seljum á netinu, allir póstlistar sem við skráum okkur á… og svo aldrei aftur af. Svona mætti lengi telja áfram. Þessar upplýsingar má nota til þess að flokka okkur sem notendur. Í heildina eru þetta um 52.000 flokkar sem samfélagsmiðlar og leitarvélar skipa notendum sínum í. Þessar upplýsingar eru síðan notaðar til þess að spá fyrir um hegðun okkar og þær seldar. Tæknin er slík að til eru algóritmar sem geta með nógu mörgum like-um í bland við upplýsingar um persónuleika okkar spáð betur fyrir um okkar hegðun en okkar nánustu vinir og fjölskylda gætu gert.“
Skúli segir að það þrátt fyrir að börn séu klár þegar kemur að því að tileinka sér nýja tækni eins og netið og samfélagsmiðla, þá sé ekki gefið að þau hafi þroskann til að takast á við hættur, áreiti og skaðlegt efni sem er að finna þar. „Það er okkar hlutverk sem foreldra að vernda börnin okkar.“
Að lokum kemur Skúli með 10 hluti sem gott er að hafa í huga varðandi netnotkun barna en listann má sjá hér fyrir neðan: