Cristiano Ronaldo gekk á dögunum í raðir Al-Nassr í Sádi-Arabíu. Hann gekk í raðir félagsins á frjálsri sölu. Samningi hans við Manchester United hafði verið rift í nóvember á síðasta ári.
Ronaldo fær um 173 milljónir punda í árslaun hjá Al-Nassr þegar auglýsingasamningar og annað er tekið inn í myndina.
Kappinn, sem er orðinn 37 ára gamall, gerði tveggja og hálfs árs samning við Al-Nassr.
Marca á Spáni hélt því svo fram í fyrradag að klásúla væri í samningi Ronaldo hjá Al-Nassr sem fólk vissi ekki af. Blaðið sagði að Ronaldo gæti verið lánaður til Newcastle ef enska liðið kemst í Meistaradeild Evrópu.
Marca segir að Ronaldo geti óskað eftir því að vera lánaður ef Newcastle kemst í keppnina.
Opinber fjárfestingasjóður Sádi-Arabíu á bæði Newcastle og Al-Nassr.
Eddie Howe, stjóri Newcastle, segir þetta hins vegar af og frá.
„Við óskum Cristiano alls hins besta á nýjum kafla en þetta er ekki satt,“ segir Howe.
„Það er engin svona klásúla.“