Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem var gerð í tengslum við samfélagslokanir á tímum heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Phys.org skýrir frá þessu.
Hinar umfangsmiklu samfélagslokanir gerðu að verkum að margir áttu allt í einu mikinn frítíma, frítíma sem veitti þeim tækifæri til að láta sér leiðast af alvöru.
Í rannsókninni var gerður greinarmunur á því að leiðast á yfirborðskenndan hátt og því að leiðast á mun hærra stigi. Þessi munur er byggður á skilgreiningu frá þýska heimspekingnum Martin Heidegger.
Það að leiðast á yfirborðskenndan hátt er afleiðing af skyndilegri örvun. Þetta veldur eirðarleysi. Það að leiðast á dýpri hátt gerist þegar fólk hefur mjög mikinn tíma afgangs og er eitt og verður ekki fyrir truflun.
„Vandinn, sem við sáum, er að samfélagsmiðlar geta linað það þegar fólki leiðist á yfirborðskenndan hátt en þessi truflun tekur tíma og orku og getur komið í veg fyrir að fólk færist á næsta stig, að leiðast á dýpri hátt, þar sem það getur hugsanlega upplifað nýja ástríðu,“ sagði Timothy Hill, einn af höfundum rannsóknarinnar.
Það að leiðast á djúpan hátt getur hljómað sem eitthvað neikvætt en það getur í raun verið jákvætt ef fólk fær tækifæri til að hugsa og þróast án truflana.
Um litla rannsókn var að ræða en þátttakendurnir voru 16 talsins. Allir voru þeir frá Englandi og Írlandi og á ýmsum aldri.