Frá því er sagt í Portúgal í dag að Cristiano Ronaldo og umboðsmaðurinn Jorge Mendes séu hættir að vinna saman.
Eftir langt samstarf á að hafa kastast í kekki þeirra á milli eftir atburði síðustu vikna.
Þannig segir Publico í Portúgal að Mendes hafi verið mjög ósáttur með viðtalið sem Cristiano Ronaldo fór í hjá Piers Morgan.
Hann taldi það ekki þjóna góðum tilgangi en viðtalið varð til þess að Manchester United rifti samningi hans. Mendes var einnig þeirra skoðunnar að viðtalið yrði til þess að stærri lið Evrópu myndu ekki vilja hann.
Ronaldo var svo ósáttur með Mendes að ekkert af bestu liðum Evrópu vildi semja við 37 ára framherjann. Það ku hafa leitt til ósættis þeirra á milli og nú vinna þeir ekki lengur saman.
Ronaldo skrifaði í gær formlega undir samning sinn við Al-Nassr í Sádí Arabíu sem gerir hann að launahæsta íþróttamanni allra tíma. Ronaldo mun þéna 175 milljónir punda á ári.
Ricky Regufe sem hefur verið aðstoðarmaður Ronaldo síðustu ár er samkvæmt fréttum nýr umboðsmaður hans en þeir hafa átt gott samstarf.