Næstkomandi föstudag verður réttað yfir manni í Héraðsdómi Reykjavíkur, sem ákærður hefur verið fyrir vörslu á barnaníðsefni.
Fréttablaðið greindi fyrst frá en DV er einnig með ákæru í málinu undir höndum. Þar segir að maðurinn hafi „ítrekaðskoðað myndir og myndskeið sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt á netinu eða með annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni.“ Segir að 99 slíkar ljósmyndir hafi fundist í eyddum skrám og ummerki um vefskoðun á slíku myndefni.
Ennfremur segir að á síma mannsins hafi fundist 286 myndir af þessu tagi í flýtiminni. Lögregla haldlagði tölvu og síma mannsins við handtöku hans.
Málið er talið varða aðra málsgrein 210. greinar a almennra hegningarlaga en þar segir að hver sá „sem skoðar myndefni á netinu eða með annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni sem sýnir kynferðislega misnotkun á barni eða sýnir barn á kynferðislegan hátt“ skuli sæta sektum eða fangelsi allt að sex árum.
Í ákærunni er þess krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Auk þess verði gerð krafa um að myndefnið verði gert upptækt.