Eins og greint var frá í morgun liggur Hollywoodstjarnan Jeremy Renner þungt haldinn á spítala eftir hræðilegt slys sem átti sér stað við heimili hans við Lake Tahoe í Bandaríkjunum. Fyrstu fréttir af slysinu greindu frá því að slysið hefði átt sér stað við snjómokstur en nú greina erlendir miðlar frá því að snjóplógur hafi keyrt yfir Renner þar sem hann var að moka veg sem liggur að búgarði hans.
Renner slasaðist illa á fæti sem og víðar um líkamann og missti mikið blóð. TMZ greinir frá því að nærstaddur læknir, sem er nágranni stjörnunnar, hafi með snarræði náð að stöðva blæðinguna með blóðrásarklemmu.
Veður var slæmt á þessum slóðum sem gerði aðkomu viðbragðsaðila erfiða en Renner var að lokum sóttur af þyrlu og fluttur á sjúkrahús þar sem gert hefur verið að sárum hans sem eru víða um líkamann. Ástand hans er sagt stöðugt en fjölskylda hans situr við sjúkrabeð hans.
Óljóst er hvernig slysið átti sér stað en Renner hafði birt myndband af sér á samfélagsmiðlum við að ryðja snjó í burtu með tækinu. Tækið á að vera hannað þannig að slys sem þetta geti ekki átt sér stað. Lögregluyfirvöld hafa lokað svæðinu og verið er að rannsaka hvernig slysið gat átt sér stað.
Renner er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem ofurhetjan Hawkeye í fjölmörgum Marvel-myndum. Hann hefur tvisvar verið tilnefndur til Óskarsverðlauna. Það var fyrir aðalhlutverkið í The Hurt Locker og fyrir aukahlutverk í The Town.