Myndband gengur nú um netheima sem sýnir hrottalegt augnablik þar sem kona hrindir þriggja ára gamalli stúlku niður á lestateina á lestarstöð í Oregon í Bandaríkjunum.
Sem betur fer voru viðstaddir fljótir að bregðast við og hjálpuðu litlu stúlkunni að komast af teinunum og slapp hún að mestu ómeidd þú hún hafi kvartað undan höfuðverk – enda lenti hún með hausinn á teinunum.
Konan sem hrinti stúlkunni hefur nú verið handtekin. Um er að ræða hina 32 ára gömlu Briönnu Lace Workman sem mun samkvæmt erlendum miðlum vera heimilislaus.
Saksóknarinn Mike Schimdt sagði í samtali við fjölmiðla: „Móðir og barn voru að bíða eftir MAX lest þegar Workman er sögð hafa hrint barninu, sem er þriggja ára, af pallinum niður á MAX lestarteinanna án nokkurrar ögrunar.
Barnið féll með andlitið á teinana og grjót áður en henni var snarlega bjargað af lestarteinunum. Barnið greindi frá sárum höfuðverk og hefur lítið rautt far á enninu eftir atvikið.“
Lögregla hefur farið fram á að Workman verði haldið í gæsluvarðhaldi þar til hún verður leidd fyrir dómara.