Töluvert hefur verið rætt um aflýsingar á vetrarferðum yfir áramótin vegna óveðursspár sem gekk ekki eftir. Almannavarnir lýstu yfir óvissustigi og sú aðgerð ásamt veðurspánni sem rættist ekki leiddi til þess að fjölmörg ferðaþjónustufyrirtæki aflýstu ferðum á gamlársdag. Talsmenn ferðaþjónustufyrirtækja segja að mikið tjón hafi orðið.
„Við verðum að búa til einhverja stefnu. Við verðum að haga okkar innviðum og vetrarþjónustu með tilliti til ferðaþjónustunnar. Hafnir fyrir sjávarútveg og vegakerfi fyrir ferðaþjónustu,“ sagði Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við Morgunblaðið í dag.
Bjarnheiður sagði að það sem gerst hefur undanfarið, óveðurspáin sem gekk ekki eftir og tíðar lokanir vegna snjókomu undanfarnar vikur, gæti rýrt traust innan ferðaþjónustunnar til stjórnvalda. „Það verður svo svakalegt tjón þegar samgöngur raskast svo það má ekki gerast nema það sé rík ástæða fyrir því.“
„Það er mjög vont að loka fyrir fram áður en öruggt er að veðrið skelli á. Það þarf að tryggja upplýsingaflæði,“ sagði Bjarnheiður ennfremur.
Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason tekur málið til umræðu á Facebook í dag. Deilir hann frétt Fréttablaðsins þar sem vitnað er í áðurnefnda frétt Morgunblaðsins. Haft er eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, að hann vonist til að stjórnvöld dragi lærdóm af atburðum síðustu vikna og vísar þar til mikilla samgöngutruflana sem hafa orðið vegna ófærðar.
Egill Helgason lítur málið öðrum augum og segir:
„Þarna er gert ráð fyrir því að tugþúsundir erlendra ferðamanna komist til staða sem fæstum Íslendingum dytti í hug að fara á um hávetur. Og það á misjafnlega útbúnum rútum og bílaleigubílum. Það er allt í lagi að hafa einhverja vetrarferðaþjónustu á Íslandi, en náttúran setur henni mikil takmörk. Eitt helsta einkenni á Íslands er jú hversu veðrið er rosalega breytilegt og oft illfyrirsjáanlegt.“
Kristján B. Jónasson bókaútgefandi bendir á að hefð sé fyrir því að vegir séu ruddir að kúabúum víðsvegar um landið svo hægt sé að sækja þangað mjólk. Ferðaþjónustan sé ný grein í sveitum landsins sem þurfi líka slíka þjónustu. Egill segir að munur sé þarna á:
„Kannski dálítill munur að það voru ekki þúsundir manna á misjöfnum farartækjum sem biðu eftir því að komast slóðana að kúabúunum eða inn í Fljót um hávetur. Og mér hrýs dálítið hugur við kröfunni sem er gerð til björgunarsveitanna – að þær verði eins konar hjástoð ferðaþjónustunnar til að tryggja að túristar geti komist þangað sem þeir vilja og lagt bílum sínum. Ef menn vilja hafa svo mikla vetrarferðamennsku þarf að nota eitthvað annað en sveitir sjálfboðaliða.“
Ketill Sigurjónsson bendir á að það sé sérkennilegt að krefjast þess að skattborgarar Íslands haldi vegum opnum fyrir ferðamenn. Hann segir ennfremur:
„Hér má t.d. ekki reisa þrjár vindmyllur nema fara í gegnum mat á úmhverfisáhrifum (þ.m.t. tveggja ára fuglarannsónir) og Rammaáætlun. Sem ég kvarta ekki yfir. Um leið má bæta hundruðum þúsunda ferðamanna til landsins árlega án nokkurra undanfarandi athuguna á þoli ferðamannastaða, áhrifa á umferð, sliti á vegum o.s.frv. Það næst ekki einu sinni samkomulag um álagningu hóflegs ferðamannaskatts.“
Margir taka þátt í umræðunni, segja að ferðaþjónustan verði að átta sig á því að veður hér á landi er ófyrirsjáanlegt, ennfremur eigi ferðaþjónustan sjálf að standa straum af snjómokstri. Björgunarsveitir séu misnotaðar því ferðaþjónustan treysti því að þær komi til bjargar þegar allt sé komið í óefni.
Kristján segist hins vegar undrast óbeit fólks á ferðaþjónustunni:
„Alltaf getur maður klórað sér í kollinum yfir þeirri griðarlegu andstöðu ef ekki andstyggð sem Íslendingar hafa á ferðaþjónustu. Þegar kallað er eftir betri samgöngum og skilvirkari vinnu við eftirlit og umsýslu með vegum landsins svo hægt sé að reka fyrirtæki í þjónustu við erlenda gesti stendur ekki á flóði athugasemda um að þetta fólk geti bara átt sig og fyrirtækin séu allt afætur, frekjudallar og nánast glæpamenn. Ég sé fólk sakna kóvit-tímans þá þá hafi landið verið laust undan plágunni miklu, ferðamönnunum. Það ætlar seint að nást að rækta útnesjamennskuna og hræðsluna við hið erlenda úr þjóðinni.“