Cristiano Ronaldo, leikmaður Al-Nassr í Sádi-Arabíu, verður launahæsti íþróttamaður heims árið 2023 ef engar stórar vendingar verða á árinu. Ronaldo samdi á dögunum við Al-Nassr og samkvæmt fréttum mun hann þéna því sem nemur í kringum 173 milljónir punda í árslaun hjá félaginu.
Það jafngildir tæpum 30 milljörðum íslenskra króna og myndi Ronaldo því, ef engar fleiri stórar breytingar eiga sér stað, stökkva yfir Lionel Messi og Lebron james á listanum yfir launahæstu íþróttamenn í heimi.
Þetta er hægt að sjá með því að bera saman laun hans hjá Al-Nassr við nýútgefinn lista Forbes yfir launahæstu íþróttamenn í heimi árið 2022.
Knattspyrnumaðurinn Lionel Messi, stjörnuleikmaður Paris Saint-Germain og nýkrýndur heimsmeistari með argentínska landsliðinu var launahæsti íþróttamaður heims árið 2022 samkvæmt samantekt Forbes.
Argentínski knattspyrnusnillingurinn þénaði því sem nemur 108 milljónum punda í laun á árinu, því sem jafngildir rúmum 18,5 milljörðum íslenskra króna.
Það munar því rétt rúmlega ellefu milljörðum, Ronaldo í hag, á milli hans og Messi miðað við launatölur Messi í fyrra.
Annar á lista Forbes, yfir launahæstu íþróttamenn heims árið 2022, var körfuboltakappinn Lebron James með um 101 milljón punda. Það jafngildir rúmum 17 milljörðum íslenskra króna.
Ronaldo endaði á þriðja sæti lista Forbes yfir árið í fyrra með um 96 milljónir punda í laun en Ronaldo spilaði stærstan hluta árs með enska úrvalsdeildarfélaginu Manchester United. Samningi hans við félagið var hins vegar rift skömmu fyrir Heimsmeistaramótið í knattspyrnu.