Kylian Mbappe hefur loks tjáð sig um athæfi markvarðarins Emi Martinez undanfarið.
Martinez og félagar í argentíska landsliðinu unnu Mbappe og Frakka í úrslitaleik Heimsmeistaramótsins í Katar á dögunum. Sá fyrrnefndi fór hamförum í fagnaðarlátunum eftir sigurinn. Hann hefur þó að miklu leyti snúist um það að gera lítið úr Mbappe, sem er stærsta stjarna Frakka.
Martinez setti til að mynda andlit Mbappe á dúkku í fagnaðarlátunum.
„Fögnuður hans er ekki mitt vandamál. Ég eyði ekki tíma mínum í svona tilgangslausa hluti,“ segir Mbappe um athæfi Martinez.
Mbappe er snúinn aftur til félags síns, Paris Saint-Germain, en hefur ekki jafnað sig á ósigrinum í Katar.
„Ég mun aldrei komast yfir það að tapa úrslitaleiknum. Félagslið mitt ber hins vegar ekki ábyrgð á því að við höfum tapað. Ég hef því reynt að vera eins jákvæður og ég get í endurkomu minni.“