Þetta kemur fram í grein sem Jón skrifar í Morgunblaðið í dag. Í henni segist hann hafa tekið þessa ákvörðun að vandlega íhuguðu máli.
Hann segir að í mörgum tilfellum muni rafvarnarvopn nýtast við að leysa mál með minni valdbeitingu en ella og auka öryggi lögreglumanna. Auk þess verði minni hætta á að sá sem þarf að yfirbuga verði fyrir skaða miðað við beitingu annarra valdbeitingarúrræða.
„Þá er mjög mikilvægt að lögreglumenn verði vel þjálfaðir í beitingu rafvarnarvopna og meðvitaðir um löggjöf og reglur um valdbeitingu því alltaf er hætta á skaða samfara valdbeitingu og notkun valdbeitingartækja. Slys á lögreglumönnum og öðrum eru of algeng, en skýrslur og reynsla erlendra lögregluembætta sýna að rafvarnarvopn eru árangursríkt tól við að draga úr slysa- og meiðslahættu þegar valdi er beitt,“ segir hann.
Morgunblaðið hefur eftir Ólafi Erni Bragasyni, forstöðumanni Menntaseturs lögreglunnar, að ákvörðun dómsmálaráðherra þýði ekki að rafvarnarvopn verði tekin í notkun samstundis. „Búnaðurinn er ekki til í landinu og þegar ráðherra gefur heimild þá þarf að hefjast handa við að undirbúa kaup á búnaðinum,“ sagði hann og benti á að bjóða þurfi kaupin út og þjálfa þá sem munu kenna lögreglumönnum að nota búnaðinn. Þessir kennarar muni þurfa tilskilin réttindi til að annast þessa þjálfun. Ekkert muni gerast í þessum efnum fyrr en það er allt í höfn.
Hann sagðist telja að miðað við að reglunum verði breytt núna og allt gangi að óskum þá geti liðið allt að hálft ár áður en lögreglumenn fara að nota rafvarnarvopn.