Elon Musk er nafn sem allir þekkja. Ríkasti maður heims, faðir Teslunnar, hinn nýi eigandi Twitter og sá er hyggst manna ferð til Mars og tengja heila okkar við tölvur. Furðufugl? Snillingur? Lýsingarorðin yfir Musk eru óteljandi.
Fæstir geta neitað því að að Musk er einn umtalaðasti frumkvöðull samtímans, hvort sem litið er það á jákvæðan eða neikvæðan hátt.
En hversu mikið veistu um Elon Musk?
Einfari sem lagður var í einelti
-Musk er fæddur og uppalinn í Suður-Afríku en fjölskyldan flutti til Kanada þegar hann var 17 ára gamall. Þaðan flutti hann til Bandaríkjanna tveimur árum síðar. Hann er með ríkisborgararétt í öllum þremur löndunum.
-Hann lærði forritun af fikti, og án nokkurrar kennslu, sem barn. Hann forritaði tölvuleikinn Blastar þegar hann var 12 ára gamall og seldi á fimm hundruð dollara.
-Musk þótti sérkennilegt barn, átti fáa vini, og kaus einveru. Það kom oft fyrir að hann horfði bara út í loftið án þess að svara þegar að foreldrar hans töluðu við hann sem olli því að þau töldu hann með skerta heyrn. Lækna grunaði ofvöxt í eyrnakirtlum og fjarlægðu þá en það breytti engu. Musk hélt sínu striki.
-Grunnskólagangan var Musk hreint helvíti og var hann lagður í einelti. Hann var oft laminn og orðinn 41 árs þegar hann loksins fór í aðgerð á nefi til að laga skemmdir frá barsmíðunum æskunnar.
Þénaði á djammi
-Þegar að Musk var við nám í háskólann í Pennsylvaníufylki átti hann vart til hnífs og skeiðar. Hann tók því upp á því að halda partý og rukka 5 dollara inn á haus. Partý Musk slógu í gegn og þurfti hann jafnvel að fá aðstoð mömmu sinnar við að standa í dyrunum og rukka inn.
Sjálfur snerti Musk aldrei áfengi né önnur vímuefni, sem hann virðist reyndar aldrei haft áhuga á, til að hafa auga á öllu og tryggja að gleðin færi vel, án þess að vekja athygli skólayfirvalda eða lögreglu.
-Partýin á skólaárunum gengu það vel að Musk og skólafélagi hans gátu leigt hús sem þeir breyttu í næturklúbb. Klúbburinn var gríðarlega vinsæll og þótt að hann rúmaði þúsund manns voru langar raðir flestar helgar.
-Eftir að hafa útskrifast með tvær BS gráður frá Pennsylvaníu átti Musk ekki erfitt með að komast inn í einn virstasta skóla heims, Stanford. Stefndi hann á doktorsnám í eðlisfræði en hætti námi eftir aðeins tvo daga til að einbeita sér að rekstri fyrirtækisins Zip2, sem hann stofnaði með bróður sínum til að þróa staðsetningarhugbúnað.
-Fjórum árum síðar seldi hann fyrirtækið til stórfyrirtækisins Compaq fyrir 307 milljón dollara. .
Er fyrirmynd Ironman
-Þegar að Robert Downey Jr. var að undirbúa sig fyrir hlutverk sitt sem Tony Stark í fyrstu myndinni um Iron Man ákvað hann að nota Musk sem fyrirmynd. Ekki aðeins horfði Downey Jr. á allt myndefni sem hann fann um Musk heldur hélt á fund hans og bað um aðstoð.
Musk var meira en sáttur við að kenna leikaranum hvernig sérvitrir og tæknisóðir milljarðamæringar haga sér og var svo kátur með útkomuna að hann sést í Iron Man 2 sem aukaleikari í örstutta stund ef vel er að gáð.
-Musk var einnig í gestahlutverki í Simpson þáttunum árið 2015 og þá sem milljarðamæringur sem vingast við Homer Simpson. Hann kom sama ár fram í þætti af The Big Bang Theory og lék þá sjálfan sig.
Seldi næstum Tesla
-Musk átti í fjárhagserfiðleikum árið 2013 og leitað til Google. Hann var næstum búin að taka boðið Google um að kaupa Tesla veldið fyrir 11 milljarða dollara. Aðeins nokkrum dögum fyrir undirskrift rauk sala á Teslu S upp og Musk hætti við í snarhasti
Fyrirtækið er metið á 350 milljarða dollara í dag.
-Musk keypti Lotus Esprit bíl sem notaður var í Bond myndinni The Spy Who Loved Me árið 1977. Í kvikmyndinni er græjan bæði bíll og kafbátur en í raun lítið annað en leikmunur.
Samt sem áður er bíllinn talinn eftirsóttasti minjagripur allra alvöru Bond mynda safnara og fannst Musk vel þess virði að greiða 1 milljón dollara fyrir græjuna, jafnvel þótt að gripurinn sé í raun lítið annað en gamall og bilaður bíll, og mun seint vera nothæfur kafbátur.
Rekur eigin skóla
-Elon Musk á tíu börn með þremur konum – svo vitað sé, þar af fimm með fyrstu eiginkonu sinni, kanadíska rithöfundinum Justine Wilson en frumburður þeirra lést aðeins vikna að aldari.
Börnin eru fædd á tímabilinu 2002 til 2021.
-Árið 2014 taldi Musk hið hefðbundna skólakerfi langt því frá boðlegt fyrir börn sín og stofnaði eigin skóla í höfuðstöðvum SpaceX, fyrirtæki í hans eigu sem þróar eldflaugar og geimför. Skólinn er ekki bara ætlaður börnum Musk heldur einnig börnum valdra starfsmanna SpaceX.
Skólinn heitir Ad Astra, sem á latínu þýðir Til stjarnanna, og er með það að markmiði að fræða börn á gjörólíkan hátt en tíðkast í hinu hefðbundna skólakerfi. Mikil áhersla er lögð á raungreinar á við stærðfræði, eðlisfræði og verkfræði svo og heimspeki. Verkleg þjálfun er stór hluti kennslunnar.
Aðeins 50 börn fá skólavist en það munu aftur á móti alltaf vera á milli 400 og 500 fjölskyldur á biðlista í von um að koma afkvæmum sínum að.
-Musk hefur átt litríka sögu hvað kvenfólk varðar allt frá sínum fyrsta skilnaði árið 2008 en sennilega muna flestir eftir sambandi hans við Amber Heard, sem svo eftirminnilega var rifjað upp í málaferlum Heard og Johnny Depp á árinu.
Dýrkar Kanye og mamma er módel
-Musk dáir Kanye West. Sem ætti kannski ekki að koma á óvart enda báðir mennirnir einstakir á sinn hátt, hvernig sem fólk kýs að túlka orðið ,,einstakur”. Musk hefur verið einlægur aðdáandi rapparans til fjölda ára og er ófeiminn við að tjá þá hrifningu sína hvenær sem tækifæri gefst.
-Mamma Elon Musk, May, er einnig þekkt, en þó ekkert á við soninn. Hún er fyrirsæta sem hefur auglýst snyrtivörur, ætlaðar eldri dömum, fyrir ekki minni merki en Clinique og Revlon. Hún hefur prýtt forsíður og komið fram í tónlistarmyndbandi með Beyonce.
May Musk var 69 ára þegar hún var valin andlit snyrtivörumerkisins Cover Girl. Hún er elsta konan sem valin hefur verið í slíkt hlutverk.
May gerði jafnvel enn betur á árinu sem er að líða en hún var á forsíðu Sport Illustrated tímaritsins, 74 ára að aldri.