Japanskur maður, sem kallar sig Toco, hafði allt frá barnsaldri átt sér þann draum að vera dýr, frekar en manneskja. Og þá helst hundur. Toco segist ekki geta fundið skýringu á þessari löngun, hún hafi einfaldlega verið til staðar allt frá því hann man eftir sér.
Í upphafi ársins lét hann draum sinn rætast, það er upp að svo miklu leiti sem unnt er, og eyddi sem samsvarar 2,5 milljónum íslensra króna í að láta hanna og búa til á sig allt að óhugnanlega eða æðislega eðlilega hundabúning.
Allt eftir hvernig litið er á málið.
Er hræddur um að vera dæmdur
Í viðtali sem birtist við Toco í Bretlandi nú í vikunni segist hann svo að segja aldrei sagt neinum frá sínu öðru sjálfi sem hundur af ótta við að vera álitinn skrítinn eða jafnvel klikkaður.
Toco segir að hann hafði þó sagt örfáum innan sinnar nánustu fjölskyldu frá eftir að búningurinn var tilbúin, enda afar stoltur af honum. Hafi tíðindin komið þeim mjög á óvart enda hafði hann aldrei minnst á löngun sína til að vera hundur áður.
Hann vill aftur á móti ekki að vinir, hvað þá vinnufélagar, komist að lífi hans sem hunds enda komi hans áhugamál ekki öðrum við. Veröldin sé þar að auki full af dómhörðu fólki sem komi aldrei til með að skilja þá sárasaklausu hamingju sem hann njóti með því að vera hundur.
Toco vill því ekki láta birta myndir af sér né gefa upp rétt eða fullt nafn.
Óvæntur en gleðilegur stuðningur
Toco klæðist búningnum nokkrum sinnum í mánuði og er með YouTube rás þar sem unnt er að fylgjast með Toco borða, leika og haga sér í flesta staði eins og hundur. Hann er með 11 þúsund fylgjendur sem sýna honum mikinn skilning og stuðning sem Toco er afar þakklátur fyrir og segir hafa komið ánægjulega á óvart.
Toco valdi að búning sem hundur af tegundinni Rough Collie, sem er hans uppáhaldstegund.
Í viðtalinu segist Toco reyna að haga sér á allan hátt eins og hundur þegar hann klæðist búningnum því það varpi skugga á ánægjuna að detta í þá gryfju að hafa sér eins og manneskja.
Toco hefur meira að segja látið útbúa sinn upp áhaldsmat í líki hundamats sem hann borðar upp úr skál þegar hann skiptir yfir í sitt hliðarsjálf.
Gríðarleg vinna og kostnaður
Fyrirtæki að nafni Zeppet bjó til búninginn en það sérhæfir sig í að útbúa leikmuni fyrir kvikmyndir og sjónvarp. Fyrirtækinu hafði aldrei áður borist slík beiðni en tók vel í hana.
Starfsmenn Zeppet byrjuðu á að grandskoða beinagrindur Rough Collie hunda, tóku hundruð mynda af slíkum hundum frá öllum sjónarhornum og prófuðu alls kyns efnablöndur til að gera feldinn sem eðlilegastan.
Það tók sex vikur að búa til búninginn, mun lengri tíma en gert var ráð fyrir í upphafi, þar sem Toco hafði miklar og sterkar skoðanir á hverju smáatriði og hikaði ekki við að fara fram á breytingar væri hann ekki fullkomlega sáttur.
Aðspurður hvað sé erfiðast við að klæðast búningnum segir Toco fátt angra hann.
„Nema þá kannski margt sem tengist loppunum. Það hefur verið snúið að læra að beita þeim.“
Hér má sjá eitt af myndböndum Toco